Keflavík Íslandsmeistari í fimmtánda sinn
unnu KR í þriðja sinn í fjórum leikjum í úrslitum Domino's deildarinnar í körfubolta í Vesturbænum í kvöld.
Keflavík er Íslandsmeistari í Domino’s deild kvenna eftir sigur gegn KR í kvöld, 70-82. Keflavík vann þar með úrslitaeinvígið 3-1. Leikurinn var jafn og spennandi lengst af en Keflavík seig fram úr á lokasprettinum og vann frábæran sigur. Þetta er í fimmtánda sinn sem Keflavík hampar Íslandsmeistaratitlinum en liðið varð líka Bikarmeistari og deildarmeistari. Ótrúleg sigurganga liðsins sem virðist hreinlega aldrei ætla að stoppa.
„Ég var pínu stressuð fyrir þennan leik þó ég sé það yfirleitt ekki mikið,“ sagði Bryndís Guðmundsdóttir sem var gríðarlega öflug í úrslitakeppninni. Hún var ekki ein um það. Það vildu allir klára dæmið í kvöld og stemmningin var góð í upphafi leiks. Keflavík komst í 9-4 en þá komu átta stig frá KR og þær röndóttu komust yfir í fyrsta sinn. Liðin skiptust síðan á að hafa forystu en heimadömurnar leiddu með fjórum stigum eftir fyrsta leikhluta, 20-16 og síðan 38-34 í hálfleik.
Keflvíkingar pössuðu vel Shannon McCallum en hún skoraði þó 19 stig í fyrri hálfleik. Pálína var þó lítill eftirbátur hennar og skoraði 14 stig og skilaði einnig varnarhlutverkinu vel þegar hún elti McCallum út um allan völl.
Keflavíkurstúlkur voru betri í þriðja leikhluta og leiddu fyrir þann fjórða með 3 stigum. Gríðarleg barátta var í lokaleikhlutanum og lítill munur á liðunum þar til þrjá mínútur voru til leiksloka en þá tókst Keflvíkingum með seiglu að síga hægt og bítandi fram úr með góðum leik. KR stúlkur gerðu sig seka um mistök undir körfunni og urðu að játa sig sigraðar í lokin 70-82. Keflvíkingar fögnuðu vel og innilega góðum sigri að viðstöddum fjölda stuðningsmanna úr Keflavík sem létu vel í sér heyra.
Pálína Gunnlaugsdóttir átti frábæran leik fyrir Keflavík en hún skoraði 30 stig og tók einnig 7 fráköst. Jessica Ann Jenkins skoraði 22 stig og var drjúg og traust. Bryndís Guðmundsdóttir átti einnig fínan leik og skoraði 13 stig. Birna Valgarðsdóttir skoraði sjö stig en tók tólf fráköst og var ótrúlega góð í úrslitakeppninni. Reynslan hafði greinilega sitt að segja og ótrúlegt skemmtilegt í raun að sjá hana svona góða með ungu stelpunum.
„Það eru allir að spyrja mig um þetta. Auðvitað langar mig að vera áfram en við sjáum til hvernig skrokkurinn verður,“ sagði hún þegar VF spurði hana hvort hún ætlaði að vera áfram með liðinu á næsta tímabili.
Sú yngsta sem skinið hefur hvað skærast að undanförnu, Ingunn Embla, skoraði 7 stig og stóð sig enn og aftur mjög vel. Gríðarlega skemmtileg „týpa“ á körfuboltavellinum. Sara Rún Hinriksdóttir sem skaust upp á stjörnuhimininn í fyrra hefur ekki náð sér á strik í undanförnum leikjum. Hún komst ekki á blað en Sandra Lind Þrastardóttir skoraði tvö og var traust þegar hún kom inn á. Hennar bíður stærra hlutverk í framtíðinni eins og fleiri ungra leikmanna í Keflavíkurliðinu.
Shannon McCallum var með 33 stig og 11 fráköst og er ótrúlegur leikmaður. Það dugði þó ekki til.
Sigurður Ingimundarson, þjálfari Keflavíkurstúlkna var auðvitað í skýjunum en ótrúlega rólegur í öllu fjörinu og fagninu. „Þetta var gaman og góður sigur og frábær vetur,“ sagði kappinn. Enginn venjulegur þjálfari og án efa sigursælasti körfuboltaþjálfari körfuboltasögunnar á Íslandi.
Sigurstund í Vesturbænum. Ekki leiðinlegt. VF-myndir/Páll Orri.
Pálína var kjörinn besti leikmaður úrslitakeppninnar.
Bryndís Guðmundsdóttir og Birna Valgarðsdóttir léku báðar vel í kvöld og í úrslitakeppninni allri.