Keflavík Íslandsmeistari
Keflavíkurstúlkur tryggðu sér í kvöld Íslandsmeistaratitilinn í körfubolta, er þær lögðu KR, 43:58, í oddaleik sem fram fór í Íþróttahúsi KR í Frostaskjóli. Samanlagt vann Keflavík úrslitarimmu liðanna 3-2. Keflavík á því bæði Íslands- og bikarmeistara kvenna í körfubolta árið 2000.Keflavíkurliðið var betra allt frá fyrstu mínútu til loka leiksins og var staðan í hálfleik 25:29 Keflavík í hag, en KR náði aldrei almennilega að komast í takt við leikinn. “Þetta var í einu orði sagt “geðveikt”, sagði Anna María Sveinsdóttir, fyrirliði Keflavíkur eftir leikinn. Við komum miklu ákveðnari til leiks og vorum einfaldlega miklu betri allan tímann. Við komum þeim á óvart og lékum þrjá-tvo svæðisvörn, sem við höfum ekki notað áður gegn KR, svo við slógum þær út af laginu strax í byrjun og þær áttu aldrei möguleika.” Anna María var stigahæst í leiknum með 15 stig. Alda Leif Jónsdóttir skoraði 12 stig fyrir Keflavík og Christie Cogley 8. Guðbjörg Norðfjörð, fyrirliði KR var stigahæst heimamanna með 13 stig, en næstar voru þær Deanne Tate, Hanna Kjartansdóttir og Kristín Jónsdóttir með sjö stig hver.Kristinn Einarsson, þjálfari Keflavíkur þurfti að sitja uppi í áhorfendastúku eins og hver annar áhorfandi, en hann tók út leikbann í kvöld. Hann var að vonum ánægður með sigurinn, en kvað það mjög stressandi að sitja uppi í stúku og geta ekki verið með liðinu. “Árangurinn í vetur byggist öðru fremur á liðsheildinni, en við erum með frábært lið,” sagði Kristinn að leik loknum. “Leikurinn í kvöld vannst fyrst og fremst á góðum varnarleik. Þessi lið eru mjög jöfn og því aðeins spurning um hvort liðið kemur betur stemmt í hvern leik fyrir sig. Við klúðruðum tækifærinu til að klára þetta heima á laugardaginn og því kom ekkert annað til greina en að klára þetta í kvöld”.