Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Keflavík í úrslit: Gunnar gekk frá ÍR
Miðvikudagur 16. apríl 2008 kl. 22:48

Keflavík í úrslit: Gunnar gekk frá ÍR

Í þriðja sinn á fimm árum verða það Keflavík og Snæfell sem leika til úrslita um Íslandsmeistaratitilinn í körfuknattleik. Keflavík skellti ÍR 93-73 í oddaleik liðanna í kvöld þar sem harðjaxlinn Gunnar Einarsson fór á kostum í liði Keflavíkur með óbilandi baráttu, 23 stig og 7 fráköst. Framan af stefndi allt í magnaðan oddaleik en Keflvíkingar sigu hægt og bítandi fram úr gestum sínum og fögnuðu loks 20 stiga sigri.
 
Úrslit kvöldsins eru merkileg fyrir þær sakir að í fyrsta sinn í íslenskri körfuknattleikssögu tekst liði að komast áfram í einvígi eftir að hafa lent 2-0 undir gegn andstæðingum sínum. Ljóst er að mikill karakter býr í Keflvíkingum sem á laugardag hefja einvígi sitt gegn bikarmeisturum Snæfells og fer fyrsti leikurinn fram í Toyotahöllinni kl. 16:00.
 
Uppselt var á leik kvöldsins og er það í fyrsta sinn í langan tíma sem uppselt er í Toyotahöllina. Uppselt var í húsið um 15 mínútum fyrir leik og var stemmningin á pöllunum frábær. Hverri körfu var fagnað sem þeirri síðustu og liðin áttu skemmtilegan upphafsleikhluta.
 
Gunnar Einarsson gerði tvo stóra þrista í fyrsta leikhluta fyrir Keflavík og hélt sínum mönnum við efnið. Arnar Freyr Jónsson kom upp með boltann og stýrði leik Keflavíkur eins og herforingi en slíkt hið sama gerði Nate Brown hjá ÍR en heimamenn leiddu 29-25 eftir fyrsta leikhluta. Anthony Susnjara lék fyrstu þrjár mínúturnar í leiknum og kom svo ekki meira við sögu og er hann greinilega enn að vinna sig úr þeim hnémeiðslum sem hann hlaut fyrr í einvíginu.
 
Arnar Freyr Jónsson var góður í fyrsta leikhluta en í öðrum leikhluta var hann hreint út sagt frábær. Hann var með sex stoðsendingar í kvöld og keyrði áfram Keflavíkursóknirnar og með hann í svona stuði er Bobby Walker best geymdur í skotbakverðinum. ÍR-ingar skiptu snemma í svæðisvörn sem gekk þokkalega uns skyttur Keflavíkur fundu fjölina.
 
Magnús Þór Gunnarsson kom Keflavík í 46-34 með þriggja stiga körfu en liðin héldu svo til leikhlés í stöðunni 52-38 fyrir Keflavík og Gunnar kominn með 11 stig fyrir Keflavík og Jón N. Hafsteinsson var með 10. Hjá ÍR var Nate Brown kominn með 15 stig og reynsluboltinn Eiríkur Önundarson var með 8. Hreggviður Magnússon fann sig ekki í kvöld og gerði aðeins 5 stig í öllum leiknum og ljóst að ÍR-ingar söknuðu hans sárt.
 
Gestirnir úr Breiðholti voru líflegri í þriðja leikhluta og með Arnar Frey á bekknum gekk sóknarleikur Keflavíkur ekki snuðrulaust fyrir sig og ÍR komst nær. Sveinbjörn Claessen setti þrist og minnkaði muninn í 62-54 en hann var aftur á ferðinni í lok leikhlutans er hann skoraði úr flautusniðskoti og breytti stöðunni í 69-61 og spennandi lokasprettur framundan.
 
Himinn og haf skilja að Keflavík og ÍR að þegar talið berst að reynslu í leikjum eins og þeim sem fram fór í Toyotahöllinni í kvöld. Keflvíkingar sýndu það og sönnuðu að þeir kunna til verka þegar allt tímabilið er að veði. ÍR-ingar fóru einfaldlega á taugum og Keflavík gerði 19 stig gegn einu frá á fyrstu sex mínútum leikhlutans og þegar um fjórar mínútur voru til leiksloka var allt eins hægt að flauta leikinn af enda staðan orðin 88-62 fyrir Keflavík.
 
Síðustu fjórar mínúturnar voru aðeins formsatriði fyrir Keflavík að klára sem fögnuðu vel í leikslok og brosti enginn breiðara en Gunnar Einarsson, besti maður leiksins. Gunnar gerði 23 stig í leiknum, tók 7 fráköst og gaf 2 stoðsendingar. Hann hitti úr 4 af 6 teigskotum sínum og 5 af 6 þriggja stiga skotum. Arnar Freyr Jónsson átti einnig glimrandi dag með Keflavík og gerði 9 stig, gaf 6 stoðsendingar og tók 5 fráköst. Jón N. Hafsteinsson var einnig sterkur með 12 stig og 7 fráköst en Keflvíkingar voru að leika fantavel í dag og eru þeir illir viðureignar í vörninni.
 
Hjá ÍR var Nate Brown bestur með 23 stig, 6 fráköst og 6 stoðsendingar en honum næstur kom Tahirou Sani með 15 stig og 7 fráköst. Þeir Sveinbjörn Claessen og Eiríkur Önundarson stóðu sína plikt báðir með 14 stig en framlagi var ábótavant frá Hreggviði sem gerði aðeins 5 stig í leiknum. Þá kom það nokkuð á óvart að Ólafur J. Sigurðsson bakvörðurinn sterki kom ekki inn á leikvöllinn fyrr en tæpar fjórar mínútur voru til leiksloka.
 
Úrslitaeinvígi Keflavíkur og Snæfells hefst á laugardag í Toyotahöllinni kl. 16:00 og verða allir leikir sýndir beint á Stöð 2 Sport.
 
Nú er að detta inn myndasafn frá leiknum sem og myndbrot og viðtöl.
 
VF-Myndir/ [email protected]  
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024