Keflavík í úrslit eftir sigur gegn Stjörnunni
Keflvíkingar sigruðu Stjörnuna, 3:2, í Kórnum í Kópavogi í gærkvöld og unnu þar með riðil eitt í A-deild Fótbolta.net mótsins í knattspyrnu með fullu húsi stiga. Þeir spila til úrslita við sigurliðið í riðli tvö en þar geta Breiðablik, ÍA og ÍBV öll náð toppsætinu.
Magnús Sverrir Þorsteinsson, Hörður Sveinsson og Jóhann Birnir Guðmundsson skoruðu fyrir Keflavík en Hörður Árnason og Atli Jóhannsson fyrir Stjörnuna. Garðbæingar gátu jafnað seint í leiknum en Árni Freyr Ásgeirsson í marki Keflavíkur varði vítaspyrnu Veigars Páls Gunnarssonar.
Keflavík fékk 9 stig í riðlinum, Selfoss og FH eru með 3 stig og eiga eftir að mætast. Stjarnan tapaði hinsvegar öllum þremur leikjum sínum og spilar um 7.-8. sætið í mótinu.