Keflavík í undanúrslit Lengjubikarsins
Keflvíkingar mættu Víkingi Reykjavík í gærkvöldi í átta liða úrslitum A-deildar Lengjubikars karla. Það þurfti vítaspyrnukeppni til að fá úrslit í leikinn en í henni hafði Keflavík betur eftir að venjulegum leiktíma lauk með 3:3 jafntefli.
Það voru Víkingar sem byrjuðu leikinn betur en þeir fengu vítaspyrnu á 27. mínútu sem þeir skoruðu úr. Fjórum mínútum síðar tvöfölduðu þeir forystuna og útlitið ekki gott fyrir Keflvíkinga
Tveimur mörkum undir var komið að samstarfi þeirra Rúnars Þórs Sigurgeirssonar og Joey Gibbs. Þá átti Rúnar góða sendingu af vinstri kanti sem Gibbs tók viðstöðulaust í leikmann Víkings og þaðan í netið. Staðan 2:1 í hálfleik.
Víkingar náðu aftur tveggja marka forystu á 57. mínútu og það var ekki fyrr en tuttugu mínútum síðar að samleikur þeirra Rúnars og Gibbs skilaði Keflvíkingum öðru marki (77'), 3:2.
Skömmu fyrir leikslok gaf Rúnar þriðju stoðsendinguna á Joey Gibbs sem jafnaði leikinn (89') og því var farið í vítaspyrnukeppni.
Bæði lið misnotuðu fyrstu spyrnur sínar í vítaspyrnukeppninni en Keflavík skoraði úr þeim fjórum sem þeir áttu eftir á meðan Víkingar skoruðu aðeins úr þremur.
Víti Keflvíkinga: Rúnar Þór Sigurgeirsson (varið), Davíð Snær Jóhannsson, Frans Elvarsson, Kian Williams og Helgi Þór Jónsson.