Keflavík í sögubækurnar
Keflavík er eina liðið í sögu efstu deildar í knattspyrnu á Íslandi sem hefur unnið fyrstu fjóra leiki sína á tímabili án þess að halda hreinu í neinum þeirra. Þetta kemur fram í skemmtilegri úttekt Fréttablaðsins í dag, en Keflavíkurliðið hefur löngum verið þekkt fyrir að leika skemmtilegan sóknarbolta, oft á kostnað varnarleiks.
Vörnin hefur að vísu verið með öflugra móti í sumar þar sem þeir Guðjón Árni Antoníusson, Kenneth Gustavsson, Guðmundur Mete og Nicolai Jörgensen hafa myndað þéttan vegg fyrir framan Ómar Jóhannsson í markinu. Það hefur þó ekki komið í veg fyrir að nokkur mörk leki inn. Valsarar skoruðu þrjú mörk gegn fimm, Fylkismenn eitt gegn tveimur líkt og HK og svo settu Skagamenn eitt mark gegn þremur.
Í viðtali við Víkurfréttir eftir einn leikinn sagði Guðmundur Steinarsson, fyrirliði Keflvíkinga, meira í gamni, að það hlyti að vera gaman fyrir áhorfendur að fá að sjá öll þessi mörk. Hann bætti því svo raunar við að þeir stefndu alltaf að því að halda hreinu og það væri í raun leiðinlegast fyrir eins góðan markvörð og Ómar að liðsfélagar hans skuli bregðast honum.
Ekki er gott að spá í framhaldið, en Keflvíkingar fá tækifæri til að bæta fyrir yfirsjónirnar með sigri gegn Þrótti í Reykjavík í kvöld.