Keflavík í neðsta sæti þegar úrslitakeppnin hefst
Keflvíkingar léku gegn Tindastóli í síðustu umferð Bestu deildar kvenna í knattspyrnu á Sauðárkróki í gær. Eftir að hafa náð forystu snemma í fyrri hálfleik með marki Marínar Rúnar Guðmundsdóttur (9’) jöfnuðu Stólarnir í upphafi þess seinni (48’) og því enduðu leikar með 1:1 jafntefli.
Framundan er úrslitakeppni neðri hluta Bestu deildarinnar og þar mætast Keflavík og Tindastóll á nýjan leik næstkomandi sunnudag í fyrstu umferð en leiknar eru þrjár umferðir. Leikurinn fer fram á Sauðárkróki en staða liðanna sem mætast í úrslitakeppninni er eftirfarandi: Stjarnan (21 stig), Tindastóll (13 stig), Fylkir (10 stig) og Keflavík (10 stig).