Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Keflavík í fimmta sæti eftir jafntefli gegn KR
Sunnudagur 18. júlí 2004 kl. 21:18

Keflavík í fimmta sæti eftir jafntefli gegn KR

Keflvíkingar og KR skildu jöfn í Frostaskjóli í kvöld, 1-1. Keflvíkingar eru með því komnir í fimmta sæti deildarinnar og virðast vera komnir á beinu brautina eftir þriggja leikja taphrinu.

Keflvíkingar hrósuðu sigri í fyrri leik liðanna í sumar og héldu áfram á sömu braut í leiknum í kvöld. Þeir stjórnuðu leiknum og komust yfir á 19. mínútu þegar Hólmar Örn Rúnarsson skoraði með þrumuskoti innan úr teignum eftir hornspyrnu.

Skömmu eftir markið fór pressan að aukast hjá KR. Það fór svo að þeir jöfnuðu á 30. mínútu eftir laglega sókn. Sigurvin Ólafsson gaf þá boltann út á hægri kantinn þar sem Arnar Jón Sigurgeirsson tók við honum. Hann hljóp fram og sendi háan bolta að nærstöng þar sem Sigurvin var mættur aftur og jafnaði metin.

Í seinni hálfleik voru Keflvíkingar mun skeinuhættari og voru oft nærri því að gera út um leikinn.

KR áttu eitt gott færi þar sem Sigurður Ragnar Eyjólfsson skallaði að marki um miðjan hálfleikinn, en Ólafur Gottskálksson sá við honum.

Keflvíkingurinn Jónas Guðni Sævarsson átti gott skot sem sleikti stöngina og þegar örskammt var eftir af leiknum misnotaði Hólmar kjörið færi.

„Ég hefði getað klárað leikinn en þrumaði langt yfir,“ sagði Hólmar í samtali við Víkurfréttir. Hann bætti því við að þrátt fyrir að leikurinn hafi verið skemmtilegur hefðu þeir vel getað hirt öll stigin.

„Það hefði ekki verið ósanngjarnt en nú erum við komnir á gott skrið. Höfum ekki tapað í fjórum leikjum í röð og það er stutt í toppinn, en það er líka stutt niður.“

Mynd: Úr fyrri leik liðanna í sumar VF/Hilmar Bragi

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024