Keflavík í 8-liða úrslit
Keflvíkingar tryggðu sér í kvöld sæti í 8-liða úrslitum Coca-Cola bikars karla í knattspyrnu, er þeir lögðu bikarmeistara KR að velli 2-1 í Frostaskjóli. Leikurinn var spennandi á að horfa, en mesta athygli vakti þó hversu hugmyndasnauðir KR-ingar voru og náðu ekki að skapa sér hættuleg færi, meðan Keflvíkingar sýndu góða baráttu og góðan leik. Fyrsta mark leiksins kom á 42. mínútu þegar Hjálmar Jónsson skoraði með góðum skalla úr miðjum vítateig KR-inga, eftir glæsilega sendingu frá Jóhanni R. Benediktssyni og þannig stóð í hálfleik, 0-1, Keflvíkingum í hag.Bikarmeistararnir ætluðu svo sannarlega ekki að láta úrslitin verða þessi og upphófu harða hríð að marki Keflvíkinga, en vörn gestanna stóð sig hetjulega í leik sínum, ásamt Gunnleifi í markinu. Heimamenn náðu þó að jafna metin eftir 9 mínútna leik í síðari hálfleik, en þá var það Jóhann Þórhallsson sem kom boltanum í netið eftir að mikil þvaga myndaðist fyrir framan mark gestanna og aðeins spurning um hverjum tækist að ná boltanum fyrst. Lengi vel stefndi í framlengingu í leiknum, en þegar um 40 mínútur voru liðnar af síðari hálfleik var brotið á Guðmundi Steinarssyni innan vítateigs heimamanna og Gylfi Orrason, dómari dæmdi vítaspyrnu. Guðmundur tók spyrnuna sjálfur og skoraði af öryggi og tryggði Keflvíkingum sigur í leiknum við gríðarlegan fögnuð sinna manna. KR-ingar úr leik í bikarnum, en Keflvíkingar komnir í 8-liða úrslit.