Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Keflavík hirðir fimmta sætið eftir stórsigur
Mánudagur 20. september 2004 kl. 00:46

Keflavík hirðir fimmta sætið eftir stórsigur

Keflvíkingar tryggðu sér fimmta sæti Landsbankadeildarinnar með stórsigri á Fram, 1-6, á Laugardalsvelli. Fram heldur engu að síður sæti sínu í deildinni því KA og Víkingur unnu ekki sína leiki.

Hefð er fyrir því að Fram hefji leiktíðina illa, en taki sig saman í andlitinu og spili af leikgleði og baráttu í síðustu leikjunum og bjargi sér þannig frá falli. Þannig var raunin ekki í ár heldur voru Framarar andlausir og getulausir með öllu og Keflvíkingar unnu harla auðveldan sigur.

Þórarinn Kristjánsson skoraði fyrsta mark Keflvíkinga með skalla á 11. mín eftir sendingu frá Zoran Ljubicic og var hægt að skrifa það mark á grandaleysi varnarmanna. Þetta var 10. mark Þórarins í sumar og tryggði það honum bronsskóinn sem þriðji markahæsti maður mótsins. Guðmundur Steinarsson skoraði annað mark fyrir Keflavík eftir snarpa sókn og leiddu þeir því 0-2 í hálfleik.

Í seinni hálfleik var sama uppi á teningnum og eftir að Hans Fróða Hansen hafði verið vísað af velli var ekki aftur snúið.

Hólmar Rúnarsson bætti við þriðja markinu eftir að hafa komið inná sem varamaður og á síðustu mínútunum röðuðust mörkin inn. Hörður Sveinsson skoraði á 85. mín, en Fróði Benjamínsen minnkaði muninn í 1-4 skömmu síðar.

Áður en yfir lauk höfðu Hörður og Hólmar hvor bætt við sínu marki og auðmýkingin var algjör. Keflvíkingar sigldu í gegnum leikinn án mikilla vandræða og var ekki að sjá á andstæðingunum að þeir væru í harðri fallbaráttu. Stuðningsmenn Fram sem Víkurfréttir heyrðu í sögðu tilfinningar blendnar. Auðvitað væri þeim létt að sleppa við fall en frammistaða þeirra manna hafi verið til skammar.

„Við hittum á góðan dag, en þeir á alveg hrikalegan,“ sagði Haraldur Guðmundsson varnarmaður Keflavíkur í samtali við Víkurfréttir í leikslok. Það var eins og þeir héldu allan tímann að þeir væru fallnir og á meðan vorum við að spila vel og halda boltanum vel innan liðsins. Svo var vörnin þeirra illa skipulögð. Ég held að Zoran hafi lagt upp einhver fimm mörk með stungusendingum.“
Haraldur bætti því við að úrslitin væru dágott veganesti fyrir undanúrslitaleikinn gegn HK á sunnudaginn kemur. „Við ætlum okkur einfaldlega að vinna þennan leik og koma okkur í úrslitin,“ sagði Haraldur að lokum.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024