Keflavík hafði ekkert í Stjörnukonur
Keflavíkurstúlkur sáu aldrei til sólar þegar þær töpuðu fyrir Stjörnunni í Domino’s deild kvenna í körfubolta í gærkvöldi. Lokatölur urðu 80-58 í Garðabænum.
Heimastúlkur náðu strax forskoti í fyrsta leikhluta en leiddu þó bara með fimm stigum í hálfleik. Í síðari hálfleik skoruðu Keflvíkingar ekki nema 25 stig og það dugði skammt gegn góðum Stjörnukonum.
Birna Valgerður Benónýsdóttir hefur aldeilis verið að stíga upp í síðustu leikjum en hún skoraði 19 stig og var stigahæst. Erna Hákonardóttir skoraði 14 en Brittany Dinkins átti dapran dag og var aðeins með 12 stig en tók þó 13 fráköst. En það munar um minna að leikmaður sem skilar venjulega yfir 30 stigum klárar ekki nema um þriðjung. Keflavíkurmærin Bríet Sif Hinriksdóttir fór mikinn með Stjörnukonum og skoraði 20 stig en eins og fram hefur komið er systir hennar, Sara Rún, á leið til Keflavíkur frá Bandaríkjunum og mun leika með liðinu út tímabilið. Það verður því mikill liðsstyrkur fyrir bítlabæjarliðið.
Keflavík er þrátt fyrir allt á toppi deildarinnar ásamt Valskonum sem eru með sterkasta liðið um þessar mundir.
Keflavík: Birna Valgerður Benónýsdóttir 19, Erna Hákonardóttir 14, Brittanny Dinkins 12/13 fráköst/7 stoðsendingar, Katla Rún Garðarsdóttir 4, Bryndís Guðmundsdóttir 4/7 fráköst, Irena Sól Jónsdóttir 2, Anna Ingunn Svansdóttir 2, Elsa Albertsdóttir 1, Hjördís Lilja Traustadóttir 0, Eydís Eva Þórisdóttir 0, Salbjörg Ragna Sævarsdóttir 0, Þóranna Kika Hodge-Carr 0.
Birna Valgerður var best hjá Keflavík.
Bríet Sif Hinriksdóttir stóð sig vel með Stjörnustúlkum.
Brittany Dinkins skoraði óvenju lítið en Erna Hákonardóttir (neðri mynd) skoraði 14 stig fyrir Keflavík.