Keflavík hafði betur í nágrannarimmunni
Keflvíkingar höfðu nauman 90-86 sigur á grönnum sínum í Grindavík í Iceland Express deild karla í gær. Gunnar Einarsson var allt í öllu í Keflavíkurliðinu og gerði 26 stig í leiknum. Með sigrinum eru Keflvíkingar komnir í 4. sæti deildarinnar með 14 stig.
Jón N. Hafsteinsson var sprækur hjá Keflavík í upphafi leiks og gerði fyrstu fjögur stig heimamanna. Keflvíkingar virtust ætla stinga af í stöðunni 8-2 en þá kom fínn kafli hjá Grindavík og þeir minnkuðu muninn í 13-12. Keflvíkingar leiddu að loknum fyrsta leikhluta 21-20.
Þorleifur Ólafsson fór mikinn fyrir Grindavík í 2. leikhluta og gerði m.a. fyrstu 5 stig Grindavíkur í leikhlutanum. Nokkuð var um slæmar sendingar á báða bóga og varð leikurinn þunglamalegur fyrir vikið. Þegar skammt var til hálfleiks hafði Keflavík enn yfir en Adam Darboe minnkaði muninn fyrir Grindavík í 40-37. Góður lokakafli Keflavíkur kom þeim þó í 51-43 þegar flautað var til hálfleiks.
Í stöðunni 56-49 rönkuðu Grindvíkingar við sér og gerðu níu stig í röð án þess að Keflvíkingar næðu að svara og staðan því orðin 56-58 Grindavík í vil. Keflvíkingar voru ekki lengi að jafna sig og náðu að komast aftur yfir í leiknum fyrir lokaleikhlutann 70-67.
Fjórði leikhlutinn var nokkuð spennandi en eftir því sem seig á leikinn virtist færast nokkuð kapp í leikmenn og minnstu munaði að syði uppúr þegar Tim Ellis sló til Þorleifs Ólafssonar og fékk fyrir vikið dæmda á sig óíþróttamannslega villu. Þegar skammt lifið leiks freistaði Páll Axel Vilbergsson þess að jafna metin með þriggja stiga skoti sem rataði ekki rétta leið. Keflvíkingar voru svo ákveðnari undir lokin og höfðu að lokum sigur 90-89.
Eins og fyrr greinir var Gunnar Einarsson með 26 stig í liði Keflavíkur og var skotnýting hans til fyrirmyndar. Hann hitti úr öllum þremur þriggja stiga skotum sínum, setti niður fimm af fimm á línunni og í teigskotum skoraði hann úr sex af sjö tilraunum. Þá var Gunnar einnig með þrjá stolna bolta og tvö fráköst. Næst atkvæðamestur hjá Keflavík var Magnús Gunarsson með 15 stig.
Hjá Grindavík gerði Steven Thomas 23 stig en Þorleifur Ólafsson skoraði 20. Aukareitis var Thomas með 11 fráköst en Páll Axel Vilbergsson gerði 16 stig og tók 12 fráköst.
Tölfræði leiksins
VF-myndir/ Þorgils Jónsson