Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Keflavík hafði betur í hörkuleik
Katla Rún Garðarsdóttir, fyrirliði Keflvíkinga, lék sinn 200. leik í efstu deild í gær aðeins 24 ára að aldri. VF/JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
fimmtudaginn 28. september 2023 kl. 09:25

Keflavík hafði betur í hörkuleik

Njarðvík og Keflavík áttust við í Ljónagryfjunni í gær í fyrstu umferð Subway-deildar kvenna í körfuknattleik. Báðum liðum er spáð góðu gengi á tímabilinu, Keflvíkingum sigri í deildinni en Njarðvík er spáð öðru til fjórða sæti. Eftir hörkuleik höfðu Keflvíkingar þriggja stiga sigur en Njarðvíkingar settu mikla pressu á gestina undir lokin.

Thelma Dís átti góðan leik og innsiglaði sigur Keflavíkur þegar hún hitti úr öðru af tveimur vítaskotum sínum á lokasekúndum leiksins.

Thelma Dís Ágústsdóttir opnaði leikinn með þristi en Njarðvíkingar svöruðu með þristum frá Jönu Falsdóttur og Láru Ösp Ásgeirsdóttur. Fyrsti leikhluti var í járnum og staðan 20:21 að honum loknum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Keflvíkingar náðu góðu áhlaupi í öðrum leikhluta og breyttu stöðunni úr 22:23 í 22:34 og höfðu ellefu stiga forystu í hálfleik (35:46).

Njarðvíkingar komu inn í seinni hálfleikinn ákveðnar að gera betur og tóku að skera niður forskot gestanna. Um miðbik þriðja leikhluta var munurinn orðinn fimm stig (53:58) og fjögur stig þegar um tvær mínútur voru eftir af leikhlutanum (62:66).

Gestirnir úr Keflavík fóru með sex stiga forystu inn í lokaleikhlutann (63:69) og stóðust áhlaup heimaliðsins sem setti allt sitt púður í að jafna. Njarðvík var að elta allan fjórðunginn og náðu að minnka muninn í tvö stig á síðustu mínútunni (80:82). Síðasta mínútan var spennandi, fyrst reyndi Thelma Dís þriggja stiga skot sem geigaði og þegar þrettán sekúndur voru til leiksloka tók Jana þriggja stiga skot sem rataði ekki rétta leið heldur. Njarðvíkingar brutu svo á Thelmu Dís þegar fimm sekúndur voru til leiksloka sem skoraði úr öðru vítaskotinu sínu og Njarðvík náði ekki að nýta þær fáu sekúndur sem voru eftir til að jafna leikinn og hann endaði 80:83.

Emile Sofie Hesseldal val langatkvæðamest í Ljónagryfjunni í gær.

Hjá Keflavík voru Thelma Dís Ágústsdóttir og Birna Valgerður Benónýsdóttir atkvæðamestar með sautján stig hvor og þá var Emelía Ósk Gunnarsdóttir með fjórtán stig.

Emile Sofie Hesseldal fór fyrir Njarðvíkingum og gerði 31 stig og tók auk þess níu fráköst og var með níu stolna bolta. Þá var Jana Falsdóttir með sautján stig og Ena Viso með fjórtán.


Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, var í Ljónagryfjunni og tók meðfylgjandi myndir sem má sjá neðar á síðunni.

Njarðvík - Keflavík (80:83) | Subway-deild kvenna 27. september 2023