Keflavík hafði betur í grannaglímunni
Íslandsmeistarar Keflavíkur höfðu yfirhöndina í kvöld þegar grannarnir úr Njarðvík mættu í Blue-höllina í Bónusdeild kvenna. Keflvíkingar náðu forystu strax í upphafi leiks en gestirnir nörtuðu í hælana á þeim allt þar til var komið í fjórða leikhluta að heimakonur hristu Njarðvíkinga endanlega af sér og lönduðu sterkum tuttugu stiga sigri (99:79).
Jasmine Dickey fór fyrir Keflavík með 33 stig og níu fráköst og þá var Thelma Dís Ágústsdóttir öflug með 21 stig og setti niður fimm af sjö þriggja stiga skotum sínum.
Hjá Njarðvík var Brittany Dinkins langatkvæðamest með 38 stig og átta fráköst en hin sextán ára Bo Guttormsdóttir-Frost átti góðan fyrsta leik með Njarðvíkurliðinu og skilaði fimmtán stigum í hús auk sex frákasta.
Keflavík - Njarðvík 99:79 (32:26, 21:19, 14:20, 32:14)
Keflavík hóf leikinn með látum og komst í 11:4. Mestur varð munurinn tíu stig í fyrsta leikhluta (20:10) en gestirnir minnkuðu hann í sex stig áður en honum lauk (32:26).
Áfram höfðu heimakonur yfirhöndina og juku muninn um tvö stig í öðrum leikhluta, staðan 53:45 í hálfleik.
Ljónynjurnar bitu frá sér í þriðja leikhluta og náðu muninum niður í eitt stig (64:63) en Keflvíkingar leiddu með tveimur fyrir síðasta fjórðun (67:65).
Bo Frost jafnaði leikinn fyrir Njarðvík í upphafi fjórða leikhluta (67:67) en tveir þristar frá Thelmu Dís fylgdu í kjölfairð og Keflavík jók muninn í sex stig (73:67).
Þristarnir kveiktu í Keflvíkingum því skömmu síðar stal Anna Lára Vignisdóttir boltanum og skilaði honum alla leið í körfu gestanna.
Eftir það tóku heimakonur völdin og skiluðu fyrsta sigrinum á tímabilinu í hús.
Keflavík: Jasmine Dickey 33/9 fráköst, Thelma Dís Ágústsdóttir 21/4 fráköst, Anna Ingunn Svansdóttir 17, Anna Lára Vignisdóttir 11/4 fráköst, Bríet Sif Hinriksdóttir 9, Agnes María Svansdóttir 8/5 fráköst, Eygló Kristín Óskarsdóttir 0, Anna Þrúður Auðunsdóttir 0, Hanna Gróa Halldórsdóttir 0, Ásdís Elva Jónsdóttir 0, Eva Kristín Karlsdóttir 0, Sigurlaug Eva Jónasdóttir 0.
Njarðvík: Brittany Dinkins 36/8 fráköst, Bo Guttormsdóttir-Frost 15/6 fráköst, Ena Viso 10, Hulda María Agnarsdóttir 9/5 fráköst, Emilie Sofie Hesseldal 6/8 fráköst, Sara Björk Logadóttir 3, Hólmfríður Eyja Jónsdóttir 0, Kristín Björk Guðjónsdóttir 0, Veiga Dís Halldórsdóttir 0, Anna Lilja Ásgeirsdóttir 0, Erna Ósk Snorradóttir 0, Lára Ösp Ásgeirsdóttir 0.
Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, tók meðfylgjandi ljósmyndir í Blue-höllinni í kvöld og ræddi við Thelmu Dís Ágústsdóttir og Bo Guttormsdóttir-Frost að leik loknum. Viðtölin og myndasafn má sjá hér að neðan.