Keflavík getur tryggt sér deildarmeistaratitilinn í kvöld
Tveir leikir fara fram í Iceland Express deild karla í körfuknattleik í kvöld þar sem Keflvíkingar geta tryggt sér deildarmeistaratitilinn. Keflavík mætir Skallagrím í Borgarnesi og Hamar fær Stjörnuna í heimsókn í Hveragerði. Báðir leikirnir hefjast kl. 19:15.
Fyrri deildarleik Keflavíkur og Skallagríms lauk með 92-80 sigri Keflvíkinga í Toyotahöllinni en í kvöld munu Skallagrímsmenn leika án nokkurra sterkra leikmanna sem glíma við meiðsli. Florian Miftari er í leikbanni og Milojica Zekovic er tábrotinn. Þá er fyrirliðinn Hafþór Ingi Gunnarsson fjarverandi sökum meiðsla.