Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Keflavík gerði út um Grindavík á 10 mínútum
Miðvikudagur 23. janúar 2008 kl. 23:00

Keflavík gerði út um Grindavík á 10 mínútum

Þrjú lið eru nú jöfn með 24 stig á toppi Iceland Express deild kvenna í körfuknattleik eftir frækinn 95-72 sigur Keflavíkur gegn heitum Grindvíkingum. Fyrri hálfleikur var magnaður þar sem liðin sýndu skemmtilegan leik en það var aðeins eitt lið á vellinum í síðari hálfleik. Keflvíkingar gerðu 30 stig gegn 12 frá Grindavík í þriðja leikhluta og tryggðu þar sigurinn í leiknum. Keflavík, KR og Grindavík eru jöfn á toppi deildarinnar með 24 stig en Haukar hafa 20 stig í 4. sæti.

 

Töluverð spenna var fyrir leik kvöldsins en þessi lið mætast um þarnæstu helgi í undanúrslitum Lýsingarbikarsins en þá fer leikurinn fram í Röstinni í Grindavík.

 

Pálína Gunnlagusdóttir opnaði leikinn með þriggja stiga körfu og snögglega komust Keflvíkingar í 9-0 og við það hófst æsilegur og stórskemmtilegur körfuboltaleikur. Grindvíkingar létu öfluga byrjun Keflavíkur ekki slá sig út af laginu og komust yfir 9-10 og leiddu síðan 26-28 að loknum fyrsta leikhluta þar sem sóknarleikur beggja liða var beittur en varnirnar þeim mun minna áberandi.

 

Fjörið hélt áfram í öðrum leikhluta þar sem Ólöf Helga Pálsdóttir fékk sína þriðju villu í liði Grindavíkur sem og Susanne Biemer í Keflavíkurliðinu. Ingibjörg Jakobsdóttir kom sterk inn fyrir Ólöfu og gerði fljótlega 9 stig og Grindavík leiddi 43-44 þegar flautað var til leikhlés.

 

Biemer var komin með 11 stig í liði Keflavíkur og Tiffany Roberson með 19 stig í liði Grindavíkur. Fyrri hálfleikurinn var frábær skemmtun og því áttu flestir von á enn betri síðari hálfleik.

 

Í síðari hálfleik skein skært í vígtennur Keflvíkinga sem fljótlega gerðu út um leikinn. Grimm vörn og magnaðar sóknarleikur sló Grindavík út af laginu sem var aldrei með í síðari hálfleik. Keflavík komst í 52-44 en Petrúnella Skúladóttir minnkaði muninn með þriggja stiga körfu í 52-47 en eftir það stungu Keflvíkingar af.

 

Þriðji leikhluti fór 30-12 Keflavík í vil og Grindavík náði aldrei að finna taktinn gegn svæðisvörn Keflavíkur. Staðan var 73-56 fyrir Keflavík fyrir fjórða og síðasta leikhlutann og þegar hér var komið við sögu var aldrei möguleiki fyrir Grindavík að komast aftur inn í leikinn.

 

Lokatölur urðu svo 95-72 fyrir Keflavík og átta leikja sigurhrynu Grindavíkur í deildinni lokið. Kaldhæðnislegt þar sem Grindavík stöðvaði átta leikja sigurhrynu Keflavíkur í deildinni þann 1. desember síðastliðinn.

 

TaKesha Watson fór hamförum í leiknum og þá sér í lagi í síðari hálfleik rétt eins og allt Keflavíkurliðið. Watson gerði 28 stig, gaf 12 stoðsendingar, stal 6 boltum og tók 4 fráköst. Henni næst var Susanne Biemer með 25 stig  og 8 fráköst en þær Margrét Kara Sturludóttir og Pálína Gunnlaugsdóttir áttu einnig ljómandi góðan dag með Keflavík. Kara með 19 stig og 15 fráköst en Pálína með 11 stig og 8 fráköst.

 

Hjá Grindavík var Tiffany Roberson með 28 stig og 16 fráköst en hún gerði aðeins 9 stig í síðari hálfleik fyrir Grindavík og munaði um minna. Þær Ingibjörg Jakobsdóttir og Petrúnella Skúladóttir áttu fína spretti fyrir Grindavík en Joanna Skiba var fjarri sínu besta með aðeins 3 stig.

 

Gangur leiksins

9-0,15-14, 26-28, 39-38, 43-44, 52-44, 65-52, 73-56, 81-59, 89-72, 95-72.

 

Tölfræði leiksins

 

VF-Myndir/ [email protected] - Á efri myndinni fagna Pálína Gunnlaugsdóttir og TaKesha Watson. Á þeirri neðri brýst Watson í gegnum Grindavíkurvörnina.

 

 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024