Keflavík enn án stiga í kvennaboltanum
Keflvíkingum ætlar að ganga illa að næla í fyrsta stigið í Pepsi Max-deild kvenna á Íslandsmótinu í knattspyrnu. Eftir fimm umferðir er liðið enn án stiga. Liðið hefur þó verið nálægt því í síðustu tveimur leikjum að næla í stig en hefur vantað herslumuninn.
Keflavík tók á móti Þór/KA á Nettóvellinum í Keflavík síðdegis í gær. Keflavíkurstúlkur byrjuðu af krafti en fengu dæmda á sig vítaspyrnu strax á þrettándu mínútu. Keflvíkingum þótti vítaspyrnan ósanngjörn, enda boltanum sparkað undir handarkrika af stuttu færi. Sandra Stephany Mayor Gutierrez skoraði úr spyrnunni fyrir gestina.
Vítaspyrnan kom Keflvíkingum aðeins úr jafnværi en þær sóttu áfram stíft og uppskáru jöfnunarmark á 38. mínútu sem Natasha Moraa Anasi skoraði.
Liðin voru áþekk í getu í síðari hálfleik og sóttu bæði af krafti. Sandra Stephany Mayor Gutierrez bætti við sínu öðru marki fyrir Þór/KA á 56. mínútu. Það reyndist sigurmark leiksins en Keflvíkingar sóttu stíft en tókst ekki að koma knettinum inn fyrir marklínu andstæðinganna þó viljinn væri mikill.
Hér að neðan má sjá viðtal við Gunnar Magnús Jónsson, þjálfara Keflavíkur, sem tekið var eftir leikinn.