Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Íþróttir

Keflavík eldri á blússandi siglingu
Mánudagur 25. júní 2007 kl. 14:00

Keflavík eldri á blússandi siglingu

Keflavík eldri skipað leikmönnum 30 ára og eldri er að gera það gott í knattspyrnunni þessa dagana en liðið er ósigrað og á sunnudag tóku Keflvíkingar granna sína úr Sandgerði í kennslustund. Lokatölur leiksins voru 10-0 Keflvíkingum í vil þar sem þjálfari 1. deildarliðs Reynis, Jakob Már Jónharðsson, gerði fimm mörk fyrir Keflavík í leiknum. Jakob gerði sjálfur garðinn frægan með Keflvíkingum fyrir vasklega framgöngu í varnarlínunni en nú hefur hann risið upp úr öskunni eins og sannur fönix og skorar grimmt í framlínunni hjá Keflavík eldri.

 

Þjálfari Keflavík eldri í leiknum í gær var ekki af verri endanum en það var framherjinn Guðmundur Steinarsson sem innan fárra ára verður löglegur í hópinn enda myndarlegur aldursforseti Landsbankadeildarliðs Keflavíkur.

 

„Þetta er léttasta staðan á vellinum, maður er bara frammi og potar þessu í netið. Þetta eru minnstu hlaupin í boltanum og bara spurning um að vera ákveðinn og á réttum stað,” sagði Jakob léttur í bragði í samtali við Víkurfréttir. „Það eru strákar í okkar liði sem eru enn í sæmilega góðu standi og svo er einn og einn inn á milli sem er þungur eins og ég. Megnið af leikmönnum okkar eru nokkuð sprækir og það skiptir öllu máli,” sagði Jakob en Keflavík eldri hefur á góðum og breiðum hóp að skipa en þar má finna leikmenn sem kunna margt fyrir sér í boltanum.

 

„Það er hellings bolti í okkar liði, þegar maður hefur verið í þessu einu sinni þá kann maður þetta og hlutirnir ganga upp ef skrokkurinn er í nokkuð góðu standi,” sagði Jakob en þetta er í fyrsta sinn í rúman áratug sem Keflavík teflir fram liði í þessum flokki.

 

„Blikar hafa verið að rúlla þessu móti upp síðustu 8-10 ár og í sumar ætlum við okkur að skáka Blikum og koma með bikarinn heim. Að sjálfsögðu er smá metnaður í þessu en það komast ekki allir í alla leiki og því er gott að vera með breiðan hóp eins og við höfum. Það er kominn tími á að Keflavík vinni þetta mót því Blikar hafa einokað þetta síðustu ár,” sagði Jakob og ljóst að Keflavík eldri ætlar sér mikið í sumar.

 

Jakob nýtir hvern leik líkt og þann síðasta en vitað er að hann getur ekki raðað inn mörkunum í allt sumar þar sem hann hefur jú skyldum að gegna í Sandgerði með Reynismönnum í 1. deild sem annar aðalþjálfara liðsins ásamt Ragnari Steinarssyni.

 

Mynd/ www.keflavik.isJakob sáttur í leikslok.

 

 

 

 

 

 

 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024