Keflavík efst á háttvísilista KSÍ
Keflavík er efst á háttvísilista eftirlitsmanna Knattspyrnusambands Íslands eftir sumarið 2004. FH var í öðru sæti og Grindavík í því þriðja.
Eftirlitsmenn gáfu liðunum einkunn eftir hvern leik sem tekur mið af fjölda áminninga og brottvísana, sóknarleik (jákvæður leikur) og framkomu leikmanna við mótherja og dómara. Einnig er lagt mat á framkomu liðsstjórnar og áhorfenda.
Þessi útkoma gæti komið Grindvíkingum til góða því að samkvæmt reglum UEFA eru þrjú sæti í Evrópukeppni félagsliða í boði fyrir háttvís félög. Ef Ísland hlýtur eitt af þessum þremur aukasætum fær Grindavík þátttökurétt þar sem bikarmeistarar Keflavíkur og Íslandsmeistarar FH hafa þegar tryggt sér þátttöku í Evrópukeppnum.