Keflavík deildarmeistari eftir stórsigur í Vesturbænum
Keflvíkingar eru deildarmeistarar í Iceland Express deild kvenna í körfuknattleik eftir stórsigur á KR í DHL-Höllinni. Lokatölur leiksins voru 59-90 Keflavík í vil en gestirnir áttu síðari hálfleikinn skuldlausan og kæfðu langflestar sóknaraðgerðir heimamanna með sterkri vörn. Nú er ljóst hvernig úrslitakeppnin verður og munu Keflavík og Haukar mætast í fyrstu umferð og svo KR og Grindavík. KR og Grindavík mætast í síðustu umferð mótsins og þurfa Grindvíkingar að vinna leikinn með 17 stiga mun til þess að ná heimavallarréttinum.
Ingibjörg Elva Vilbergsdóttir fyrirliði Keflavíkur hafði ærna ástæðu til þess að fagna í kvöld en hún á 20 ára afmæli í dag og varð deilarmeistari með Keflavík. Hvernig líst henni á að mæta Haukum í fyrstu umferð úrslitakeppninnar? ,,Bara vel, við ætlum okkur að vinna núna og liðsheildin okkar er orðin sterk sem og vörnin hjá okkur,” sagði Ingibjörg kát í leikslok en hún gerði 4 stig fyrir Keflavík í kvöld og lék fantagóða vörn rétt eins og allt Keflavíkurliðið.
Fyrri hálfleikurinn var jafn og spennandi en Keflvíkingar voru ávallt skrefinu á undan og leiddu 35-42 í leikhléi þar sem Susanne Biemer var komin með 12 stig í liði Keflavíkur en Candace Futrell með 19 stig hjá KR.
Keflvíkingar lokuðu enn betur vörninni hjá sér í síðari hálfleik og leiddu 46-64 að loknum þriðja leikhluta. Snemma í fjórða leikhluta köstuðu KR-ingar endanlega inn handklæðinu og gestirnir völtuðu yfir heimamenn eins og áður greinir 59-90 með sterkum varnarleik.
Síðasta umferðin mun því ekki breyta neinu um stöðu liða í deildinni nema viðureign KR og Grindavíkur og þurfa Grindvíkingar 17 stiga sigur til þess að ná heimaleikjaréttinum af KR.
Pálína Gunnlaugsdóttir var stigahæst hjá Keflavík í kvöld með 19 stig og átti ljómandi góðan dag og næst henni var Susanne Biemer með 17 stig. Futrell lét lítið að sér kveða í síðari hálfleik hjá KR rétt eins og restin af liðinu og lauk leik með 23 stig og gerði hún aðeins 4 stig í síðari hálfleik.
VF-Myndir/ [email protected] – Á efri myndinni fagna Keflvíkingar stórsigri sínum á KR og deildarmeistaratitlinum en á þeirri neðri er afmælisbarnið og fyrirliðinn Ingibjörg Elva Vilbergsdóttir. Keflvíkingar fá deildarmeistaratitilinn afhentan í næsta leik í Toyotahöllinni gegn Hamri en líkast til fer sá leikur fram á föstudag.