Keflavík bikarmeistari!
Keflvíkingar eru Poweradebikarmeistarar árið 2011 eftir sigur á KR fyrir skömmu lokatölur, 72 - 62. Birna Valgarðsdóttir var valin maður leiksins. Tafir urðu á leik vegna bilunar í skotklukku og leikur hófst því um 20 mínútum á eftir áætlun. Keflvíkingar byrjuðu gríðarlega ákveðið og komust fljótlega í 12 - 2 og KR-ingar tóku leikhlé. Birna Valgarðsdóttir strax komin með 5 stig og útlitið gott hjá Keflavíkurstúlkum. KR-ingar voru ekki á því að hleypa Keflvíkingum fram úr sér og settu 6 stig í röð strax eftir leikhlé. Jafnræði var orðið með liðunum og staðan var 19 - 16 fyrir Keflavík að loknum fyrsta leikhluta. Annar leikhluti var jafn og leikmenn virtust losna við taugaspennu sem einkenndi leikinn í upphafi. Staðan í hálfleik var svo 30 - 33 KR-ingum í vil, atkvæðamestar í hálfleik voru þær Jacquline Adamshick með 11 stig og 7 fráköst og Bryndís Guðmundsdóttir með 6 stig. Chazny Morris var drjúg fyrir KR með 11 stig og 6 fráköst.
Seinni hálfleikur hófst með sama jafnræði og þeim fyrri lauk með og staðan 35 - 35 eftir rúmar 2 mínútur og allt útlit fyrir spennandi leik. Í þriðja leikhluta komust Keflvíkingar svo á skrið og gerðu nánast út um leikinn en ekkert virtist ganga upp hjá KR-ingum og staðan 54 - 44 fyrir Keflvíkinga fyrir lokaleikhlutann. Áfram héldu Keflvíkingar að auka forystuna og Ingibjörg Jakobsdóttir setti risa þrist á mikilvægu augnabliki og kom Keflavík í 63 - 50. Þegar 5 mínútur voru eftir var forystan orðin 14 stig 68- 54 en næstu fjórar mínútur skoruðu Keflvíkingar aðeins 1 stig en KR-ingar náðu alls ekki að færa sér það í nyt enda var lánleysi þeirra algert og ekkert vildi ofaní hjá þeim röndóttu. Lokakaflinn var ekki ýkja spennandi og Keflvíkingar lönduðu sínum fyrsta bikarmeistaratitli 72 - 62 undir stjórn Jóns Halldórs Eðvaldssonar eftir að hafa tapað síðustu tveimur bikarúrslitaleikjum sínum.
Til hamingju Keflavík með bikarmeistaratitilinn 2011!
Atkvæðamestar í dag: Jacquline Adamshick, 19 stig/14 frk, Birna Valgarðsdóttir 14 stig, Bryndís Guðmundsdóttir 12 stig/10 frk/6 stoðs, Pálína Gunnlaugsdóttir 9 stig og Ingibjörg Jakobsdóttir 8 stig.
Myndir frá leiknum má sjá í ljósmyndasafni Víkurfrétta með því að smella hér.