Keflavík beit frá sér á lokasprettinum
Keflavík hafði nauman 75-83 sigur á Breiðablik í Iceland Express deild karla í kvöld. Varnarleikur Suðurnesjamanna hrökk í gang á hárréttum tímapunkti og hafa Keflvíkingar því 18 stig líkt og toppliðin Stjarnan, Njarðvík og KR sem öll eiga leik á morgun. Draelon Burns lék sinn fyrsta deildarleik fyrir Keflavík og setti hann 27 stig á Blikana í Smáranum.
Keflvíkingar voru mun líflegri í upphafi leiks og fékk nýjasti meðlimur Keflvíkinga, Draelon Burns, þann heiður að opna leikinn fyrir gestina með körfu í teignum. Stuttu síðar leiddu Keflvíkingar 4-14 og Blikar tóku leikhlé enda vörn þeirra hriplek fyrstu mínúturnar.
Keflvíkingar bættu bara í eftir leikhlé Blika og komust í 8-21 áður en heimamenn ákváðu að taka þátt í leiknum. Síðustu þrjár mínúturnar í fyrsta leikhluta gerðu Blikar 11 stig gegn 7 frá Keflvíkingum sem leiddu 19-28 eftir fyrsta leikhluta.
Vörn Blika batnaði til muna í öðrum leikhluta en Keflvíkingar höfðu áfram yfirhöndina og leiddu 40-44 í hálfleik þar sem Blikar unnu annan leikhluta 21-16. Gunnar Einarsson lék ekki með Keflvíkingum í kvöld og þá er Halldór Örn Halldórsson enn fjarverandi sökum meiðsla.
Blikar voru fljótir að jafna metin í síðari hálfleik og það gerði Daníel Guðni Guðmundsson og staðan 44-44. Jeremy Caldwell bauð svo upp á glæsileg tilþrif þegar Blikar komust í 53-52 en þá stálu heimamenn boltanum sem endaði með því að Caldwell tróð með tilþrifum. Keflvíkingar tóku leikhlé í kjölfarið enda gekk lítið hjá þeim á báðum endum vallarins.
Sigurður Þorsteinsson fékk sína fjórðu villu í liði Keflavíkur snemma í þriðja leikhluta og sást lítið eftir það. Baráttan var Blikamegin í þriðja leikhluta sem leiddu 62-58 fyrir lokasprettinn.
Gylfi Geirsson opnaði fjórða leikhluta með þriggja stiga körfu og kom Blikum í 65-58 en bæði hann og Rúnar Pálmarsson komu líflegir inn af Blikabekknum í kvöld. Ekki leið á löngu uns Keflvíkingar fóru að bíta frá sér og máttu heimamenn svo sem alveg búast við því að Keflavík myndi ekki gefast upp baráttulaust.
Þröstur Leó Jóhannsson tók fínar rispur og í einni slíkri kom hann Keflavík í 65-68 og þá tóku heimamenn leikhlé. Daníel Guðni náði svo að minnka muninn í 74-76 en af miklu harðfylgi breyttu Keflvíkingar stöðunni í 75-81.
Þegar 40 sekúndur voru til leiksloka og sex stiga munur á liðunum reyndu Blikar þriggja stiga skot sem geigaði og þar með var björninn unninn. Keflavík kláraði dæmið svo 75-83 þar sem bakvarðasveit Keflvíkinga gerði vel í fjarveru Sigurðar landsliðsmiðherja.
Draelon Burns gerði 27 stig og tók 7 fráköst fyrir Keflavík í kvöld og fór ekki sjáanlega mikið fyrir kappanum. Næstur honum kom svo Sigurður Þorsteinsson með 17 stig þrátt fyrir að vera töluvert á bekknum.
Jonathan Schmidt lauk leik með 17 stig í liði Blika og Jeremy Caldwell gerði 16 en Blikar naga sig eflaust í handarbökin yfir því að hafa ekki haldið betur á spilunum á lokasprettinum.
Texti og mynd: Jón Björn Ólafsson // karfan.is
[email protected]