Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Keflavík átti ekki möguleika í Seljaskóla
Miðvikudagur 9. apríl 2008 kl. 23:05

Keflavík átti ekki möguleika í Seljaskóla

Sem dæmi um yfirburði ÍR gegn Keflavík í kvöld gaf Nate Brown einn síns liðs fleiri stoðsendingar en allt Keflavíkurliðið gerði til samans. ÍR leiðir nú undanúrslitaeinvígið 2-0 gegn Keflavík eftir frækinn 94-77 sigur í Seljaskóla. Liðin mætast í þriðja leiknum á föstudag þar sem ÍR geta tryggt sér sæti í úrslitum deildarinnar.

Gunnar Einarsson leikmaður Keflavíkur var fjarri því sáttur með Keflavíkurliðið þegar Víkurfréttir náðu tali af honum í leikslok. ,,Frammistaða okkar í dag var bara til háborinnar skammar. Við vorum engan veginn tilbúnir í þennan leik og urðum okkur til skammar frammi fyrir fólkinu sem kom hingað til að styðja okkur. Við höfum samt alla getu til þess að komast í gegnum þetta því við höfum sýnt það í vetur að við erum besta liðið þegar við spilum eins og menn,” sagði Gunnar sem gerði 4 stig fyrir Keflavík í kvöld á þeim 23 mínútum sem hann spilaði í leiknum.

Magnús Þór Gunnarsson var eini Keflvíkingurinn í dag sem sýndi af sér einhvern baráttuvilja og gerði hann 17 stig í leiknum og þau komu ekki auðveldlega. ÍR var að leika góða vörn á Magnús sem þurfti að hafa mikið fyrir stigum sínum í dag. Aðrir liðsmenn Keflavíkur voru skelfilega illa upplagðir í leiknum og þó Bobby Walker hafi gert 20 stig og Nate Brown hjá ÍR aðeins 7 stig þá fór ekkert á milli mála í Seljaskóla í kvöld hvor þeirra sé betri leikstjórnandi. Nate Brown átti húsið, stjórnaði sínum mönnum eins og herforingi og var heilinn á bak við þá kennslustund sem Keflvíkingar fengu í Hellinum.

Eftir þriggja stiga körfu frá Sveinibirni Claessen var staðan skjótt orðin 11-4 fyrir ÍR en Keflvíkingar jöfnuðu metin í 21-21 með þriggja stiga körfu frá Bobby Walker og þannig stóðu leikar eftir fyrsta leikhluta.

Þegar líða tók á annan leikhluta skildu leiðir og Steinar Arason skaut ÍR-inga í gang en hann má vart sjá körfuna þá syngur boltinn í netinu. ÍR stakk af, léku grimma vörn og sama hvort Keflavík beitti svæðisvörn eða maður á mann vörn virtust ÍR-ingar ekki eiga í neinum vandræðum með að komast upp að körfunni eða finna opið skot fyrir utan.

Leikar stóðu því 51-37 fyrir ÍR í hálfleik en það átti einvörðungu eftir að syrta í álinn hjá Keflavík. Snemma í þriðja leikhluta náði ÍR sínu mesta forskoti í leiknum þegar Sveinbjörn Claessen setti niður þrist og staðan orðin 60-37. Sama hvað Keflvíkingar reyndu eftir þetta þá voru ÍR-ingar einfaldlega miklu betri. Héldu fengnum hlut og létu deildarmeistara Keflavíkur á köflum líta út fyrir að vera byrjendur í sportinu.

Á meðan ÍR léku agaðan bolta undir styrkri stjórn Nate Brown voru Keflvíkingar mikið að stóla á einstaklingsframtak stöku leikmanna og það gefur sjaldnast vel til lengri tíma. Magnús Gunnarsson reyndi hvað hann gat að kveikja í sínum mönnum en ekkert gekk. Þá var skotnýting heimamann í ÍR hreint ótrúleg í kvöld. Þeir settu niður 70,7% skota sinna í teignum og þeir Steinar Arason, Ólafur Sigurðsson, Hreggviður Magnússon, Sveinbjörn Claessen og Eiríkur Önundarson hittu úr öllum teigskotum sínum í leiknum. Þessir fimm leikmenn settu niður samtals 17 teigskot í 17 tilraunum.

Eitthvað mikið þarf að koma til í leik Keflavíkur ætli þeir sér ekki að fara í sumarfrí á föstudag. Fyrir leik kvöldsins kom það fram í Fréttablaðinu að Keflvíkingar þyrftu meira framlag frá Magnúsi fyrirliða sínum og Magnús svaraði kallinu á meðan aðrir leikmenn voru algerlega andlausir.

Bobby Walker gerði 20 stig fyrir Keflavík í kvöld og Magnús Gunnarsson 17 en hjá ÍR var Sveinbjörn Claessen stigahæstur í sterku liði heimamanna með 19 stig en alls fimm leikmenn ÍR gerðu 12 stig eða meira í leiknum. Nate Brown var magnaður með 7 stig og heilar 18 stoðsendingar í leiknum á meðan Keflavíkurliðið gaf aðeins 17 stoðsendingar allan leikinn.

Liðin mætast í þriðja leiknum á föstudag kl. 19:15 í Toyotahöllinni í Keflavík.

VF-Mynd/ [email protected]Magnús Þór Gunnarsson var til í að berjast í kvöld en fékk litlar undirtektir frá félögum sínum í Keflavík.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024