Keflavík átti ekki í vandræðum með vængbrotna Grindvíkinga
Keflavík tók á móti liði Grindavíkur í Subway-deild kvenna í kvöld. Fyrir leikinn var Keflavík með örugga forystu með tólf sigra og eitt tap, Grindavík var í fjórða sæti með níu sigra og fjögur töp. Keflavík vann öruggan sigur, 86-68.
Hlutskipti liðanna á nýju ári eru misjöfn, lið Keflvíkinga veiktist svo um munar hvað varðar mannskap þar sem fyrirliði liðsins, Katla Rún Garðarsdóttir, gengur eigi kona einsömul, og Agnes María Svansdóttir hélt til Bandaríkjanna í háskólaboltann. Grindavík hins vegar styrkti sig, Charisse Fairlay var látin víkja fyrir dönsku landsliðskonunni Sarah Mortensen, og Dagný Lísa Davíðsdóttir skipti úr Fjölni yfir í Grindavík. Dagný sem er frá Hveragerði, hefur verið að jafna sig á úlnliðsbroti og hefur ekkert leikið síðan í desember árið 2023 en hún var frábær með liði Fjölnis fram að meiðslunum. Fyrir þá sem ekki vissu, þá er Sarah systir Daniel Mortensen sem leikur með karlaliði Grindavíkur.
Keflavík byrjaði leikinn betur og leiddi eftir fyrsta fjórðung, 19-15. Daniela Wallen fór mikinn fyrir Keflavík og var kominn með 10 stig og 5 fráköst en hjá Grindavík skiptu þrír leikmenn fimmtán stigunum á milli sín, Danielle Rodriguez með 5 stig, Eve Braslis með 6 og Sarah Mortensen með 4.
Keflavíkurkonur voru áfram við bílstjórasætið í öðrum fjórðungi og komust níu stigum yfir skömmu fyrir lok hálfleiksins en leiddu að honum loknum, 41-31. Wallen áfram óstöðvandi fyrir heimaliðið með flotta tvennu, 19 stig og 10 fráköst. Stigaskorið áfram jafnt hjá gestunum.
Keflavík hélt áfram að bæta við forskotið í seinni hálfleik og þegar þrjár mínútur lifðu þriðja leikhlutans var munurinn kominn upp í 20 stig, 61-41. Gestirnir áttu samt lokasprettinn, náðu muninum niður í 13 stig en Keflavík kom honum aftur upp í 16 stig, 66-50 fyrir lokafjórðunginn.
Lokaniðurstaðan var aldrei spurning, Keflavík sigldi öruggum sigri í hús, 86-68.
Títtnefnd Wallen var frábær með 25 stig, 20 fráköst, 7 stoðsendingar og 3 stolna bolta en ekki má gleyma Birnu Benónýsdóttur, hún setti 27 stig og tók 5 fráköst.
Hjá Grindavík var Sarah stigahæst með 19 stig og tók 12 fráköst, Eve Braslis var með 16 stig og tók 8 fráköst og Danielle Rodriguez var með 16 stig, 12 fráköst og 5 stoðsendingar.
Næst er það bikarinn um helgina, Keflavík mætir Haukur á útivelli á sunnudag og Grindavík mætir Valskonum á útivelli á laugardag.
Meðfylgjandi myndir tóku Ingibergur Þór Jónasson og Sigurbjörn Daði Dagbjartsson