Keflavík afþakkaði starfskrafta Willums - leitað að heimamanni í starfið
Keflvíkingar ákváðu á fundi sínum að framlengja ekki samning sinn við Willum Þór Þórsson sem stýrt hefur liðinu undanfarin tvö ár. Willum lýsti því í viðtali við VF á laugardag að hann hefði áhuga á að halda áfram með liðið. „Keflavíkurliðið er áhugavert fyrir þjálfara,“ sagði hann meðal annars.
Keflavík varð í 6. sæti í fyrra en í 8. sæti núna og í fallbaráttu á lokakafla deildarinnar. Keflvíkingar hafa hug á því að finna þjálfara innan félagsins. Þar er líklegt að nöfn Gunnars Oddssonar og Zorans Ljubicic séu ofarlega á listanum. Vitað er að Freyr Sverrisson hefur sýnt stöðunni áhuga en þó aðeins í spjalli við stuðningsmenn, ekki formlega við stjórn liðsins. Freyr á langan þjálfaraferil að baki. Hann þjálfaði yngri flokka í Njarðvík í 14 ár og undanfarin ár hjá Haukum en með Frey sem þjálfara fögnuðu Haukar sínum fyrsta Íslandsmeistaratitli í 4. flokki. Freyr hefur líka þjálfað yngri landslið Íslands. Í stuttu spjalli við VF sagðist hann myndi skoða málið ef til hans yrði leitað. Freyr er uppalinn Keflvíkingur og lék m.a. með meistaraflokki liðsins á sínum yngri árum. Hann hefur náð góðum árangri með landsliðin og yngri flokka. Hann er með a-stigs þjálfaragráðu sem er næst hæsta gráða frá UEFA.
Freyr hefur lýst því yfir að meira samstarf ætti að vera milli Keflavíkur og Njarðvíkur og um það hafa margir verið sammála og talið vanta mikinn upp á þann þátt. Í sumar komu nokkrir leikmenn úr Njarðvík til Keflavíkur og léku nokkra leiki með Keflavík.
Gunnar Oddsson á að baki farsælan feril hjá Keflavík og þjálfaði m.a. liðið með Sigurði Björgvinssyni þegar liðið varð Bikarmeistari 1997. Zoran Ljubicic lék áður með Keflavík og hefur verið í bæjarfélaginu frá því hann kom til liðsins. Hann hefur þjálfað yngri flokka hjá félaginu undanfarin ár. Zoran er m.a. þjálfari bikarmeistara 2. flokks Keflavíkur en þeir unnu Hauka/Markaregn nýlega.
Freyr Sverrisson hefur þjálfað yngri flokka í Njarðvík og hjá Haukum undanfarin ár auk yngri landsliða Íslands.
Zoran Ljubicic á gleðistund með nokkrum 2. flokks leikmönnum Keflavíkur nýlega eftir bikarmeistaratitil.
Gunnar Oddsson kom í þjálfarateymi Keflavíkur í sumar og var Willum til aðstoðar.