Keflavík áfram í Hópbílabikarnum!
Keflavík vann sannfærandi heimasigur á Hamri Hópbílabikar karla í kvöld. Lokatölur voru 77-67 og þar sem Keflavík hafði einnig unnið fyrri leikinn með 30 stiga mun komust þeir áfram í undanúrslitin þar sem þeir munu mæta liði Tindastóls.
Þar sem Keflvíkingar voru svo gott sem búnir að tryggja sér sæti í næstu umferð með sigrinum í fyrri leiknum brugðu þjálfarar Keflavíkur á það ráð að leyfa fleiri leikmönnum að spreyta sig til að hvíla lykilmenn sína fyrir átök komandi vikna. Skemmst frá að segja stóðu leikmenn sig með prýði og var sigur aldrei í hættu.
Guðjón Skúlason var ánægður með frammistöðu sinna manna í leik sem hann sagði að hafi verið skylduverkefni. „Ég er sérstaklega ánægður með ungu strákana, þeir spila alltaf vel þegar þeir fá tækifærin.“
Davíð Jónsson var stigahæstur Keflvíkinga og skoraði 21 stig, þar af 15 úr þriggja stiga skotum. Jón Nordal var sterkur undir körfunni þar sem hann tók 15 fráköst og spilaði góða vörn að vanda.
Faheem Nelson var atkvæðamestur Hamarsmanna og skoraði 14 stig og tók jafnmörg fráköst.