Keflavík áfram í bikarnum eftir sigur á KR
Keflavík er komið áfram í 16-liða úrslit í Powerade-bikarnum í körfuknattleik eftir sigur gegn KR í Vesturbænum í kvöld. Lokatölur urðu 71-77, Keflavík í vil. Jafnræði var með liðunum allan leikinn og var staðan í hálfleik, 34-37.
Keflavík, sem á titil að verja, náði að innbyrða sigurinn með jöfnum og góðum leik. Keflavík skoraði 13 stig í röð í lok þriðja leikhluta og í upphafi þess fjórða og hélt Keflavík forystunni eftir það.
Magnús Þór Gunnarsson átti líklega sinn besta leik á leiktíðinni til þessa en hann skoraði 27 stig. Michael Craion skoraði 16 stig en aðrir leikmenn voru með færri stig. Þess má einnig geta að Grindavík komst áfram í sömu keppni eftir stórsigur á Leikni, 52-98 og Reynir Sandgerði lagði Aftureldingu af velli, 108-91.
KR-Keflavík 71-77 (20-16, 14-21, 16-18, 21-22)
Keflavík: Magnús Þór Gunnarsson 27/4 fráköst, Michael Craion 16/9 fráköst/4 varin skot, Darrel Keith Lewis 11/8 fráköst, Valur Orri Valsson 11/5 stoðsendingar, Snorri Hrafnkelsson 4/5 fráköst, Stephen Mc Dowell 4/6 fráköst/5 stoðsendingar/6 stolnir, Andri Daníelsson 2, Almar Stefán Guðbrandsson 2.