Keflavík áfram eftir tvíframlengdan leik
Það var heldur betur boðið upp á veislu þegar Keflavík og Njarðvík mættust í átta liða úrslitum VÍS-bikars kvenna og þurfti að tvíframlengja till að knýja fram úrslit. Í seinni framlengingunni voru Keflvíkingar sterkari og fara því áfram í undanúrslit á kostnað Njarðvíkinga. Lokatölur 103:97.
Bæði lið voru að þreifa fyrir sér í byrjun leiks en um miðjan fyrsta leikhluta tóku Keflvíkingar að síga fram úr og höfðu náð átta stiga forskoti þegar leikhlutinn var úti (22:14).
Í öðrum leikhluta sýndu Njarðvíkingar allar sínar bestu hliðar og náðu að vinna upp það forskot sem Keflavík hafði. Njarðvík setti niður fimm þriggja stiga körfur í lok leihlutans, fyrst var það Erna Hákonardóttir sem setti niður þrist og svo komu fjórir þristar í röð frá Bríet Hinriksdóttur sem kom Njarðvík í fimm stiga forystu (41:46). Birna Valgerður Benónýsdóttir náði að svara fyrir Keflavík með þristi áður en blásið var til hálfleiks og minnka muninn í tvö stig (44:46).
Annar og þriðji leikhluti voru mjög jafnir og þurfti að grípa til framlengingar en eftir venjulegan leikhluta var staðan 80:80.
Fyrri framlenging var mjög jöfn, Njarðvík gerði fimm stig í röð í lok hennar og náði að síg tveimur stigum fram úr Keflavík og tvær mínútur eftir. Það var ekki fyrr en í blálokin að Keflavík náði að jafna, það gerði Agnes María Svansdóttir sem setti niður jöfnunarkörfu (90:90) af miklu harðfylgi. Keflavík reyndist sterkari aðilinn í seinni framlenginu og gerði út um leikinn með því að skora þrettán stig gegn sjö. (103:97).
Hjá Keflavík var Daniela Wallen gríðarlega sterk með 22 stig, sautján fráköst og fimm stoðsendingar, þá var hún með 35 framlagspunkta. Karina Konstantinova var einnig í stuði og gerði 28 stig, tók fjögur fráköst og átti sjö stoðsendingar.
Aliyah Collier var allt í öllu hjá Njarðvík en hún var með 34 stig, 26 fráköst, fjórtán stoðsendingar og hvorki fleiri né færri en 49 framlagspunkta.
Myndaveisla úr leiknum verður birt á vf.is fljótlega