Keflavík áfram eftir stórleik Jesse Rosa
Jesse Pellot-Rosa kom Keflvíkingum í undanúrslit IcelandExpress-deildar karla í körfuknattleik. Keflvíkingar sigruðu Njarðvíkinga í Ljónagryfjunni í gærkvöldi, þriðjudagskvöld, með 104 stigum gegn 92. Jesse Rosa fór á kostum og skorði 44 stig í leiknum og tók 10 frá köst.
Gestirnir úr Keflavík voru betri aðilinn í fyrri hálfleik og Njarðvíkingum var ljóst þegar þeir gengu til búningsherbergja í hálfleik að þeir þyrftu kraftaverk ef þeir ætluðu að afstýra sumarfríi um miðjan mars. Njarðvíkingar ákváðu því að gefa allt í leikinn í síðari hálfleik og náðu að saxa mjög á forskot Keflvíkinga og komu stigamuninum niður í sex stig á tímabili. Keflvíkingar stóðust hins vegar áhlaupið og þar átti fyrrnefndur Jesse Rosa stóran þátt í leik Keflavíkur. Þrátt fyrir að vera að leika sinn þriðja leik á fjórum dögum, raðaði kappinn niður körfum, gerði 21 stig í fyrri hálfleik og 23 í þeim síðari.
Þrír leikmenn Njarðvíkur voru að skora yfir 20 stig í leiknum. Logi Gunnarsson var með 25 stig, Heath Sitton var með 24 og Magnús Gunnarsson 22. Hjá Keflvíkingum var það Jesse Rosa sem setti niður 44 stig og Sigurður Þorsteinsson, Ísafjarðartröllið, skoraði 20 stig. Aðrir voru með minna. Magnús Gunnarsson var með sex þrista í leiknum eins og Jesse Rosa, sem fékk einnig að vinna rækilega fyrir kaupinu sínu í gærkvöldi og hvíldi aðeins í tæpar 2 mínútur í leiknum.
Ljósmyndir: Hilmar Bragi Bárðarson
Jesse Rosa var sannarlega á flugi í Njarðvík í gærkvöldi eins og þessar ljósmyndir úr leiknum sýna svo glögglega.