Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Keflavík áfram eftir markalaust jafntefli
Laugardagur 24. júní 2006 kl. 17:25

Keflavík áfram eftir markalaust jafntefli

Keflvíkingar tryggðu sér sæti í næstu umferð InterTOTO keppninnar með markalausu jafntefli gegn Norður-írska liðinu Dungannon Swifts fyrir stundu.

Fyrri leikinn unnu Keflvíkingar 4-1 og voru því líklegri en ekki að halda áfram.

Leikmenn Dungannon pressuðu stíft í upphafi leiks í dag og áttu skot í stöng áður en Keflvíkingar vöknuðu til lífsins. Írarnir léku afar fastan bolta eins og sást á Keflavíkurvelli fyrir viku, en portúgalskir dómarar leyfðu þeim ekki að komast upp með neitt í dag. Þeir vísuðu einum Íranum af velli um miðjan fyrri hálfleik eftir að Símun Samúelsen var sparkaður niður þegar boltinn var ekki einu sinni í leik.

Eftir það var aldrei spurning um hvernig færi því þær fáu sóknaraðgerðir sem Dungannon lagði  í voru stöðvaðar af vörn Keflvíkinga. Keflvíkingar sjálfir voru ekki heldur að gera neinar rósir, en Magnús Þorsteinsson og Jónas Guðni Sævarsson áttu góð færi sem þeir náðu ekki að nýta.

"Þetta var vel ásættanlegt," sagði Kristján Guðmundsson, þjálfari Keflvíkinga, í viðtali við Víkurfréttir eftir leikinn. "Við gerðum það sem til þurfti og erum komnir áfram."

Kristján lofaði dómara leiksins sérstaklega fyrir framgöngu þeirra. "Þeir voru alveg frábærir. Þeir gáfu gul spjöld og rauð þar sem átti við og sýndu þar með gott dæmi um það hvernig dómarar geta stjórnað leiknum."

Næsti Evrópuleikur þeirra er gegn Lilleström um næstu helgi og verður þar skorið úr um hvort liðið mun mæta Newcastle í þriðju umferðinni. Flestir leikmenn sluppu við meiðsl, en Branco Milisevic og Guðmundur Mete meiddust lítillega en verða væntanlega kláriri í slaginn um næstu helgi.

 

Myndir: Tyrone Times

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024