Keflavík áfram
Keflvíkingar sigruðu Fram í kvöld 0-1 og komust því í 8 liða úrslit í Visa bikarkeppni karla í knattspyrnu. Það var hið fínasta veður til knattspyrnuiðkunar á Laugardalsvellinum, skínandi sól og dúnalogn en einungis 360 áhorfendur á þjóðarleikvanginum.
Leikurinn byrjaði frekar rólega og virtust Frammarar vera ívið grimmari á upphafsmínútunum. Á 25. mínútu leiksins fengu Keflvíkingar hornspyrnu sem Guðmundur Steinarsson tók. Fínn bolti fyrir mark Fram og var það Hólmar Örn Rúnarsson sem skallaði boltann í markið. Gunnar Sigurðsson, markmaður Fram, var ekki fjarri því að verja boltann en náði of seint til hans og staðan því 0-1 Keflvíkingum í vil. Eftir markið skiptust liðin á að sækja en færin voru frekar bitlaus. Undir lok fyrri hálfleiks hreinsaði Haraldur Guðmundsson boltann út úr teig Keflvíkinga og rataði hann beint í fætur Þórarins Kristjánssonar sem komst einn á móti markmanni en skaut framhjá. Staðan því 0-1 í hálfleik.
Seinni hálfleikur hófst á svipuðum nótum og sá fyrri endaði, liðin ekki að sækja mikið og voru frekar vör um sig. Á 57. mínútu átti Zoran Ljubicic hættulega stungusendingu inn á Þórarinn Kristjánsson en varnarmenn Fram voru vandanum vaxnir og bægðu hættunni frá. Frammarar héldu þá strax í sókn og áttu fyrirgjöf sem Ólafur Gottskálksson, markmaður Keflavíkur, ætlaði að grípa inn í en blindaðist af sólinni og missti af knettinum sem lék lausum hala í teig Keflvíkinga. Ólafur Ragnarsson dæmdi þá í sömu andránni aukaspyrnu á Fram en þeir höfðu gerst brotlegir í teignum og misstu því af tækifærinu.
Á 75. mínútu leiksins áttu Frammarar dauðafæri en Jón Gunnar Gunnarsson skaut þá naumlega fram hjá. Eftir því sem líða tók á leikinn sigu Keflvíkingar aftar á völlinn og sókn Frammara ágerðist. Í kjölfarið gátu Keflvíkingar því beitt skyndisóknum sem gáfu næstum því af sér mark. Á 93. mínútu leiksins fékk Hörður Sveinsson, sem kom inn á sem varamaður, góða sendingu fram völlinn og var í ákjósanlegu færi þegar skot hans reið af en missti marks. Lokatölur leiksins urðu því 0-1 Keflvíkingum í vil og þeir því komnir áfram í Visa bikarkeppninni.
Þriðjudaginn 6. júlí verður dregið í 8 liða úrslitunum kl. 12.
Mynd úr myndasafni VF.