Keflavík á sigurbraut
Sigruðu Valskonur á heimavelli
Keflvíkingar báru sigurorð af Valskonum í Domino's deild kvenna á heimavelli í gær. Lokatölur urðu 71-66 fyrir heimakonur í nokkuð spennandi leik. Keflvíknigar voru betri aðilinn framan af leik og leiddu í hálfleik með tveimur stigum. Í þriðja leikhluta náðu Keflvíkingar góðu forskoti og munurinn var 15 stig þegar lokaleikhlutinn hófst.
Sóknarleikurinn gekk ekki vel í síðasta leikhluta hjá heimaliðinu, þar sem Keflvíkingar skoruðu aðeins 7 stig gegn 17 frá Valskonum. Þær keflvísku náðu þó að landa mikilvægum og sterkum sigri og halda áfram á sigurbraut.
Melissa Zorning skoraði 27 stig fyrir Keflvíkinga og var þeirra besti leikmaður. Sandra Lind Þrastardóttir og Marín Laufey Davíðsdóttir voru einnig drjúgar en liðsheildin var sterk hjá Keflvíkingum.