Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Keflavík 1 - 1 KR
Laugardagur 26. febrúar 2005 kl. 20:22

Keflavík 1 - 1 KR

Leikur Keflvíkinga og Kr-inga endaði með jafntefli 1-1 í deildarbikarnum í dag.  Leikurinn bar með sér að þjálfarar liðanna eru greinilega að þreifa fyrir sér með leikmenn og leikaðferðir.  Mörg ný andlit mátti sjá í Keflavíkur liðinu, Gestur Gylfason og Ómar Jóhannson eru komnir aftur heim og spiluðu allan leikinn og stóðu sig vel.  Leikurinn fór rólega á stað en Keflvíkingar voru líklegri til að skora þar sem Guðmundur Steinarsson átti tvö skotfæri en Kristján Finnbogason sá við honum.  Vörn Keflvíkinga var brothætt í byrjun enda ung varnarlína og menn að slípa sig saman og er deildarbikarinn góð leið fyrir þá að öðlast reynslu og kynnast spilamennsku liðsfélaganna.  KR-ingar skoruðu á 37. mínútu fyrri hálfleiks og gerðist lítið marktækt það sem lifði af fyrri hálfleik.

Seinni hálfleikur var aðeins líflegri og boltinn gekk betur á milli manna og bæði lið gerðu sig líkleg til að skora.  Keflvíkingar fengu aukaspyrnu rétt fyrir utan teig um miðbik seinni hálfleiks og var Guðmundur Steinarsson fyrirliði Keflvíkinga fljótur að taka hana og endaði boltinn í netinu án þess að Kristján kæmi nokkrum vörnum við í markinu.  Fleiri mörk voru ekki skoruð þrátt fyrir að bæði lið hafi fengið færi til þess og endaði leikurinn 1-1.  Kunnugleg andlit sátu á varamannabekk Keflavíkur þar sem Jónas Sævarsson og Scott Ramsay vermdu tréverkið.  Þeir komu þó báðir inná fljótlega í seinni hálfleik.

Guðjón Þórðarson lét heyra í sér og var duglegur við að koma skipunum inn á völl til sinna manna eins og honum einum er lagið.              

Ásgrímur Albertsson sem gekk til liðs við Keflavík frá HK fyrir skömmu var sterkur í miðri vörn Keflavíkurliðsins og Ómar Jóhannson var öruggur í markinu.  Þá var Guðmundur Steinarson síógnandi.



Byrjunarlið Keflavíkur í dag:

                                 Ómar

Þorsteinn       Ásgrímur         Atli            Guðjón       


Ingvi              Hólmar           Gestur        Ólafur Ívar      


                    Hörður       Guðmundur

 

Næsti leikur Keflvíkinga í deildarbikarnum er sunnudaginn 13. mars við Fram í Fífunni.    

VF-Myndir/Héðinn Eiríksson




Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024