Keflavík 1 - 0 Grindavík
Keflvíkingar unnu Grindvíkinga 101-80 í fyrsta leik liðanna í átta liða úrslitum Intersport-deildarinnar í Sláturhúsinu í kvöld.
Keflvíkingar byrjuðu vel og Glover opnaði leikinn með góðri körfu. Keflvíkingar komust í 7-2, og voru Anthony Glover og Gunnar Einarsson með fyrstu 9 stig Keflvíkinga. Darrel Lewis skoraði fyrstu 6 stig Grindvíkinga og staðan 9-6 fyrir Keflvíkingum. Liðin spiluðu maður á mann í upphafi og skiptust þau á að hafa forskot í fyrsta fjórðungi og staðan var 17-17 þegar fjórar mínútur voru eftir af fjórðungnum. Páll Axel smellti Grindvíkingum í 17-20 með annarri þriggja stiga körfu sinni í leiknum. Helgi Jónas sem hefur verið að glíma við meiðsli bróðurpart tímabilsins kom inná þegar 3 mínútur voru eftir af fyrsta leikhluta. Terrel Taylor var drjúgur í fyrsta leikhluta og skoraði 6 stig á stuttum kafla. Allt var í járnum og var útlit fyrir spennandi leik og staðan 22-22 eftir troðslu frá Taylor. Arnar Jónsson skoraði á síðustu sekúndum fjórðungsins þegar brotið var á honum og kom Keflvíkingum í 28-22 þar sem Keflvíkingar skoruðu síðustu sex stig fjórðungsins.
Í öðrum leikhluta kom Jón Hafsteinsson sterkur inn og skoraði fyrstu fjögur stig Keflvíkinga í leikhlutanum og Keflvíkingar komast í 33-24. Þá gerist mjög svo umdeilt atvik þegar Terrel Taylor virtist stíga á hálsinn á Jóni Hafsteinssyni sem lá óvígur eftir á vellinum. Það verður að segjast að dómarar leiksins voru ragir í dóm sínum þegar þeir dæmdu aðeins óíþróttamannslega villu á Taylor sem hefði átt að fjúka útaf. Áhorfendur Keflvíkinga voru ekki beint ánægðir með þessi brögð Taylor og var baulað á hann það sem eftir lifði leiks. Sigurður Ingimundarson var ekki sáttur með meðferðina á Jóni og öskraði að dómurum leiksins: „Hvað þarf að gera til að reka menn úr húsi.“ Leikurinn hélt þó áfram og tók Einar Einarsson, þjálfari Grindvíkinga Taylor útaf til að róa hann aðeins, en kappinn kom þó inná skömmu seinna. Hitinn hélt þó áfram og Helgi Jónas og Gunnar Einarsson ögruðu hvor öðrum og fannst Einari Einarssyni, Gunnar hafa sýnt óíþróttamannslega framkomu í garð Helga, en eina sem hann fékk fyrir vel valin orð til dómara leiksins var tæknivilla. Keflvíkingar juku forskot sitt með 10 stigum í röð og komust í 40-24 með þriggja stiga körfu frá Arnari. Jeffrey Boschee svaraði þó með þriggja stiga körfu fyrir Grindavík sem gaf þeim neista. Grindvíkingar náðu að saxa á forskot Keflvíkinga niður í 10 stig þar sem Morten Szmicdowicz skoraði síðustu fjögur stig Grindvíkinga í fjórðungnum og staðan 53-43 þegar liðin gengu til hálfleiks.
Seinni hálfleikur byrjaði með látum og fór Jeffrey Boschee fyrir Grindvíkingum og setti niður fimm stig á skömmum tíma. Keflvíkingar brettu upp á sig ermarnar og skoruðu sjö stig í röð á kafla þar sem Grindvíkingar misstu einbeitingu og voru Keflvíkingar ekki lengi að refsa þeim. Þegar um mínúta var til loka þriðja leikhluta náðu Grindvíkingar að minnka muninn niður í níu stig, 77-68. Góður endasprettur Keflvíkinga í fjórðungnum tryggði þeim 13 stiga forystu áður en haldið var til fjórða leikhluta, 81-68.
Fyrstu stig síðasta leikhluta komu ekki fyrr en ein og hálf mínúta voru liðnar af honum og var þar að verki Sverrir Þór Sverrisson með þriggja stiga körfu. Ekkert gekk upp í sókn Grindvíkinga og töpuðu þeir boltanum á mikilvægum tímum sem Keflvíkingar nýttu sér vel og komust í 92-71 með þriggja stiga körfum frá Nick Bradford og Gunnari Einarssyni og aðeins fimm mínútur til leiksloka. Anthony Glover fékk fljótlega eftir það sína fjórðu villu en það kom ekki að sök því Keflvíkingar voru með öll völd á vellinum og Grindvíkingar ekki líklegir til að narta í hælana á þeim. Leikurinn fjaraði út og spiluðu minni spámenn síðustu mínútur leiksins fyrir bæði lið og endaði leikurinn 101-80 fyrir Keflavík.
Sláturhúsið var einfaldlega of sterkt fyrir Grindvíkinga í kvöld og voru Keflvíkingar töluvert grimmari í leiknum. Grindvíkinga vantaði á tímabili baráttu og vilja til að leggja deildarmeistarana en má búast við að þeir mæti tvíefldir til leiks á laugardaginn þegar liðin mætast í Röstinni í Grindavík.
Áhorfendur voru vel með á nótunum í leiknum og heyrðist þó mest í þeim þegar baulað var á Tarrel Taylor. Hinsvegar hefði fleira fólk mátt láta sjá sig á leiknum en það er líklegt að svo verði í Röstinni á laugardag.
Stigahæstur í liði Keflvíkinga í kvöld var Anthony Glover með 30 stig, 10 fráköst og 7 stolna bolta. Nick Bradford var að spila vel og endaði með 26 stig og 16 fráköst. Gunnar Einarsson var með 19 stig fyrir heimamenn og Jón Hafsteinsson og Sverrir Sverrisson 6 stig hvor. Magnús Gunnarsson var ekki að finna sig í leiknum og skoraði aðeins 5 stig.
Hjá Grindvíkingum var Jeffrey Boschee með 25 stig. Darrel Lewis var með 20 stig og 6 fráköst, Páll Axel og Terrel Taylor voru með 12 stig hvor og Morten Szmicdowicz var með 6 stig og 7 fráköst.
Sigurður Ingimundarson var að vonum ánægður með leik sinna manna í leikslok „Við spiluðum fína vörn eftir fyrsta leikhluta, þetta var hraður leikur til að byrja með en svo spilum við vel sem liðsheild og vörnin var að standa sig“. Hann vildi ekki tjá sig um atvikið hjá Tarrel Taylor og Jóni Hafsteinssyni og sagði það vera í hlutverki annarra að dæma um það. „Leikurinn á laugardaginn er nýr leikur, við erum jú 1-0 yfir en þeir eru sterkir heima, en ef við spilum eins og við vorum að gera í dag þá vinnum við þá.“ Anthony Glover og Nick Bradford skoruðu samtals hátt í 60 stig fyrir Keflvíkinga og sagðist Sigurður vera ánægður með spilamennsku kappanna „Þeir voru báðir að spila fanta vel og fengu góða hjálp hjá félögunum, við vorum duglegir að láta þá hafa boltann á góðum stöðum og þeir skiluðu því sem þurfti að skila“. Það var þó fyrst og fremst vörn Keflavíkur sem uppskar sigur í kvöld „Sverrir, Elli, Arnar Freyr koma með svakalegan kraft inn í liðið þó þeir séu kannski ekkert að skora mikið eru þeir að spila hörku vörn og leggja upp fyrir félagana“. Sigurður bætti svo við að Gunnar Einarsson hafi verið mjög öflugur í kvöld og að Magnús Gunnarsson og Jón Nordal hafi átt ágætis kvöld þrátt fyrir að skora ekki mikið. „Okkar styrkur er auðvitað sá að við eigum fullt af mönnum sem eru að leggja í púkkið á allskonar hátt“.
Einar Einarsson var skiljanlega ekki eins ánægður með úrslit kvöldsins. „Keflvíkingarnir voru bara einfaldlega sterkari á öllum sviðum og það sem við lögðum upp fyrir leikinn gekk bara ekki upp, við verðum bara að einblína betur á okkar leik við vorum alltof mikið að elta þeirra leik, ef við ætlum að fara að hlaupa með Keflavík þá verðum við bara rassskelltir. Við áttum í raun aldrei almennilega möguleika í leiknum, við gerðum alltof mikið af mistökum og vorum að klikka á auðveldum skotum og auðveldum sendingum. Að tapa bolta á móti Keflavík þýðir oftast tvö stig í andlitið en á móti öðrum liðum er það bara tapaður bolti, þeir eru snillingar í að refsa“. Einar var ekki paránægður með dómgæsluna í leiknum „Við töpuðum ekki leiknum útaf þeim en þeir áttu ekki góðan leik“ Hann sagðist ekki hafa séð almennilega atvikið hjá Tarrel og Jóni „Dómararnir ráku hann ekki út eða sáu þetta ekki, ég veit það ekki, en ég ætla ekkert að setja mig í dómarasæti og reka manninn inn í klefa, það er ekkert í mínum verkahring. Við ætluðum að taka á þeim, við komum ekki til að gefa þeim þetta en samkvæmt allri umfjöllun fór hann yfir strikið en ég á eftir að fara heim og skoða þetta betur. Auðvitað leggjum við ekki upp með að slasa menn en við ætlum að spila stíft“. Annað umdeilt atvik í leiknum var þegar Gunnar Einarsson og Helgi Jónas voru að kljást undir lok annars leikhluta „Gunnar gaf honum olnbogaskot, dómarinn orðaði það þannig að Helgi hafi verið að ögra honum með að ýta boltanum í hann“. Eftir það atvik fékk Einar tæknivillu fyrir vel valin orð í garð dómarans „Dómararnir voru litlir kallar í stórum búning og þeir þola ekki smá gagnrýni og maður spyr sig hvort er grimmara röfl eða högg, það er sorglegt að maður þurfi að röfla í ákveðinn tíma til að fá þá til að dæma eins og menn, Siggi byrjaði að röfla og þá dæmdu þeir í smá tíma með Keflavík og þegar ég röflaði í smá tíma fengum við fullt af skíta villum“. Einar segir liðið ekki tilbúið að fara í sumarfrí strax og ætlar að mæta með sína menn vel stemmda á laugardaginn „Við byrjum ekkert í mínus á laugardag, við ætlum að knýja fram oddaleik. Við þurfum bara að vinna þá tvisvar og það er alveg sama hvort við vinnum þá í fyrsta leik eða þriðja leik“.
VF-Myndir:/Bjarni Halldór og Jón Björn