KEFLAVÍK
Mjög jafntSigurður Björgvinsson, þjálfari Keflvíkinga, sagðist hlakka til sumarsins. „Ég held að tímabilið verði mjög jafnt og tel að ekkert lið slíti sig áberandi frá hópnum, hvorki á toppnum né botninum. Liðin sem spáð er í botnbaráttuna, Grindavík, Breiðablik, Víkingur og Valur geta unnið öll hin liðin á góðum degi. Liðin sem margir telja topplið deildarinnar, KR, ÍA og ÍBV hafa ekki fengið ljósa mynda á leikmannahóp sem er ekki gott svo stuttu fyrir upphaf móts. Upphaf mótsins er gríðarlega mikilvægt því við leikum 4 leiki á 10 dögum og skiptir gengið í þeim leikjum öllu máli. Þarna erum við að tala um að 22-23% mótsins klárast á 10 dögum. Við leikum gegn Víking, Fram og Leiftur á útivelli og fáum Skagamenn í heimsókn. Þau lið sem ná sem flestum stigunum í þessum darraðadansi hafa byggt góðan grunn til að ná árangri. Hjá okkur eru allir heilir og margir ungu strákanna að banka duglega á byrjunarliðsdyrnar. Af öðrum liðum verður skemmtilegast að sjá til Leiftursliðsins en þeir hafa aldrei komið eins sterkir undan vetri. Þá verður ÍBV með sterkt lið eins og KR og Skaginn. Annars tel ég jafnt mót okkur í hag auk þess sem skemmtanaígildið er miklu meira fyrir alla. Ég geri þá kröfu að Keflavíkurliðið verði stöðugt og engir öldudalir verði í leik liðsins í sumar. Samkeppnin innan liðsins er mikil og slegist um sæti í 16 manna hópnum.,