Keflavíkurstúlkur rúlluðu yfir KR
Keflavíkurstúlkur unnu sinn fyrsta sigur á árinu í Pepsi-deildinni í knattspyrnu þegar þær gerðu góða ferð í Vesturbæinn í Reykjavík í gærkvöldi. Keflavík skoraði 4 mörk gegn engu hjá KR en liðin eru að berjast á botni deildarinnar.
Keflavíkurstúlkur voru miklu betri allan tímann en þær skoruðu þrjú mörk á 11 mínútum í fyrri hálfleik. Anita Lind Daníelsdóttir kom þeim á bragðið með marki beint úr hornspyrnu. Sophie Mc Mahon Groff bætti við öðru marki og síðan skalla Natasha Moraa Anasi í mark KR og kom liðinu í 0:3. Hún bætti svo við marki í síðari hálfleik og niðurstaðan því 0:4 fyrir Keflavík.
Baráttan var allsráðandi hjá Keflavík og liðið sýndi að tap í fyrstu fimm leikjunum segir ekki allt. Sveindís Jane Jónsdóttir átti frábæran leik þó hún hafi ekki skorað.
Með sigrinum komst Keflavík á blað og er nú með 3 stig eins og KR en fjögur lið eru með 6 stig.
Grindavíkurstúlkur unnu FH í Inkasso-deildinni og eru í 3.-4. sæti. Þær unnu FH 2:1 í Grindavík í gær. Þær hafa unnið tvo leik, gert eitt jafntefli og tapað einum leik.
Sveindís Jane átti flottan leik með Keflavík.