Katla með Íslandsmet á NM
- Gott gengi lyftingafólks úr UMFN
Katla Björk Ketilsdóttir setti Íslandsmet og vann til silfurverðlauna á Norðurlandamóti unglinga í ólympískum lyftingum sem fór fram í Hafnarfirði um síðustu helgi. Katla hefur sett fjölda Íslandsmeta undanfarin misseri og bætti enn við þau á NM þegar hún setti met bæði í flokki 17 ára og yngri og 20 ára og yngri með því að lyfta 68 kg í snörun og 83 kg í jafnhendingu.
Katla keppir fyrir UMFN og auk hennar kepptu þeir Andri Orri Hreiðarsson og Guðmundur Juanito Ólafsson. Andri keppti í flokki karla 20 ára og yngri -77 kg. Hann lyfti 94 kg í snörun og 115 kg í jafnhendingu og hafnaði í 5. sæti. Guðmundur keppti í flokki karla 20 ára og yngri -94 kg. Hann lyfti 103 kg í snörun og 132 kg í jafnhendingu og endaði í 4. sæti.
Guðmundur Juanito Ólafsson lenti í 4. sæti í flokki 20 ára og yngri -94 kg. Mynd/Lyftingasamband Íslands