Kastaði stól inn á völlinn í Röstinni
Haukar sigruðu Grindavík í Iceland Express deild kvenna í körfuknattleik í gær, 83-72, en þjálfari Hauka, Ágúst Björgvinsson, var rekinn út úr húsi.
Grindavík hóf leikinn betur og var yfir 20-16 að loknum fyrsta leikhluta. Liðin gengu svo til hálfleiks í stöðunni 40-38.
Að loknum þriðja leikhluta var staðan 58-54 Grindavík í vil og spennan mikil í leiknum. Svo fór að Haukar sigruðu leikinn 83-72 en það gerðu þær þjálfaralausar þar sem Ágúst Björgvinsson var rekinn út úr húsi. Varð Ágúst æfur þegar um 5 mínútur voru til leiksloka og svo fór að dómarar leiksins ráku hann út, við það kastaði hann stól, aftur fyrir sig, inn á leikvöllinn sem hafnaði í einum leikmanni Grindavíkur. Leikmanninum varð ekki meint af en hlaut þó smávægilegan áverka, hegðun af þessu tagi á ekkert skylt við íþróttir og er ekki til eftirbreytni.
„Það er hlutverk dómaranna að kæra atvikið og við munum styðja dómarana í því máli,“ sagði Unndór Sigurðsson, þjálfari Grindavíkur, um atvikið í gær. En varðandi leikinn sjálfan sagði Unndór að einbeitningarleysi hefði verið sökin. „Við náðum ekki að nýta okkur þann meðbyr sem kemur úr svona atvikum, heldur komu Haukar dýrvitlausir til leiks og kláruðu dæmið. Við hentum sigrinum frá okkur annan leikinn í röð og það er eitthvað sem við þurfum að laga,“ sagði Unndór að lokum.
Jerica Watson gerði 30 stig fyrir Grindavík í gær og reif niður 19 fráköst. Hjá Haukum átti Helena Sverrisdóttir stórleik þar sem hún nældi sér í þrefalda tvennu, 20 stig, 10 stoðsendingar og 11 fráköst. Kesha Tardy var þó stigahæst hjá Haukum með 36 stig og 19 fráköst, sannkallaðir stórleikir hjá Keshu og Helenu.
Tölfræði leiksins
VF-mynd/ Jerica í leik gegn Breiðablik fyrr á leiktíðinni