Kartbrautin samþykkt sem alþjóðleg keppnisbraut
Stjórn alþjóða Go-kart sambandsins hefur samþykkt kart-brautina sem til stendur að byggja fyrst brauta í Iceland MotoPark. Vilhjálmur Vilhjálmsson, framkvæmdastjóri Toppsins sem fer með framkvæmdir, segist nú einungis bíða eftir framkvæmdaleyfi frá skipulagsyfirvöldum.
Alþjóðaakstursíþróttasambandið, FIA, hefur gefið það út að það muni styrkja verkefnið og segir Max Mosley, forseti FIA, í bréfi til Vilhjálms Vilhjálmssonar að FIA muni með glöðu geði styðja við bakið á verkefninu og það hafi lengi vel vakið mikinn áhuga hjá FIA.
,,Við höfum nú þegar skrifað undir viljayfirlýsingar um sölu á lóðum og einnig varðandi rekstur á hótelinu á svæðinu. Við lofuðum að hafa Go-kartið tilbúið í júní og er allt klárt frá okkar hendi,” sagði Vilhjálmur Vilhjálmsson í samtali við Víkurfréttir.
Go-Kart brautin sem rísa mun fyrst í Iceland MotoPark hefur því verið samþykkt fyrir alþjóða keppnir en hún var í hönnuð af Clive Bowen og Apex Circuit Design Ltd.