Karla- og kvennalandsliðin náðu silfri í Andorra
Íslenska karlalandsliðið í körfuknattleik tryggði sér í dag silfurverðlaunin á Smáþjóðaleikunum í Andorra. Bar liðið sigurorð af San Marínó, 94-82, í leik um annað sæti mótsins en það voru Kýpverjar sem sigruðu á mótinu.
Fram kemur á vefsíðu Körfuknattleikssambands Íslands að í lokafjórðung leiksins hafi Íslendingar náð að hrista andstæðingana af sér og knýja fram sigur. Eftir fyrsta leikhluta var staðan 25-24 fyrir Ísland og 47-43 í hálfleik. Eftir þrjá fjórðunga var staðan 68-65. Það var síðan í stöðunni 72-72 að leiðir skyldu og íslenska liðið náði góðum leikkafla sem gerði útslagið.
Karla – og kvennalandslið Íslands höfnuðu því bæði í 2. sæti mótsins í körfuknattleik en kvennaliðið tapaði gegn Lúxemborg, 48-57, í úrslitaleik mótsins.
Keflvíkingurinn Magnús Gunnarsson var stigahæstur í leiknum með 27 stig. Næstur á eftir honum kom Hlynur Bæringsson með 19 stig.
Tölfræði leiksins
VF-mynd/ Magnús að gera það sem hann kann best í leik með landsliðinu í Keflavík