Kári kláraði Keflvíkinga með magnaðri sigurkörfu
Keflvíkingar glopruðu niður unnum leik gegn Haukum í öðrum leik liðanna í 8 liða úrslitum Domino’s deildarinnar í körfubolta í TM höllinni í Keflavík. Haukamaðurinn Kári Jónsson skoraði sigurkörfuna á lokasekúndunni frá vítalínu eigin vallarhelmings eftir að hafa fengið boltann úr frákasti sem Haukar unnu þegar Keflvíkingar höfðu möguleika á að tryggja sér sigur. Heimamenn höfðu möguleika á að skora þegar 3,4 sek. voru eftir. Boltinn var sendur inn í teig en sendingin var slæm og Haukar unnu boltann. Kári fær boltann og lætur vaða og skorar þessa mögnuðustu körfu í sögu Domino’s deildarinnar. Lokatölur urðu 82-85 í ótrúlegum leik. Keflvíkingar voru steinrunnir og stuðningsmenn þeirra sem stóðu sig mjög vel í leiknum trúðu ekki eigin augum.
Heilladísirnar voru sannarlega með þeim rauðu því Keflavík var með 3ja stiga forskot fyrir síðustu sókn Hauka. Keflvíkingar voru ekki nógu skynsamir þegar þeir brutu á Kára við endalínuna þegar 3,4 sekúndur voru til leiksloka. Kári fór á vítalínuna og henti niður þremur vítum eins og ekkert væri. Keflvíkingar fengu boltann en klúðruðu síðasta möguleikanum eins og fyrr er getið.
„Við gáfum þeim skot í lokin og sigurinn. Þetta stingur, ég viðurkenni það. Þetta var alveg fáránlegt í lokin,“ sagði Guðmundur Jónsson, besti maður Keflvíkingar en hann keyrði upp stemmningu í upphafi og var stigahæstur í leiknum með 23 stig. Þurfti að fara af velli þegar tvær mínútur voru til leiksloka eftir að hafa fengið fimmtu villuna á sig.
Fyrir þennan lokakafla voru Keflvíkingar með forystu allan leikinn, leiddu með tíu stigum eftir fyrsta leikhluta og voru með fimmtán stiga forystu fyrir lokaleikhlutann. Keflvíkingar léku frábæra vörn og sýndu baráttu sem einkenndi liðið á gullaldarárum bítlabæjarliðsins. Það var því fátt sem benti til þess að Haukar væru að fara að hirða leikinn. Þeir mættu hins vegar mjög grimmir í lokaleikhlutann en heilladísirnar voru sannarlega með þeim í blálokin. Þeir skoruðu sex síðustu stig leiksins á 3,4 sekúndum. Það hefur líklega ekki gerst áður í svona leik.
Keflavík-Haukar 82-85 (27-17, 17-24, 22-10, 16-34)
Keflavík: Guðmundur Jónsson 23, Hörður Axel Vilhjálmsson 15/4 fráköst/7 stoðsendingar, Christian Dion Jones 12/6 fráköst, Reggie Dupree 9/7 fráköst, Magnús Már Traustason 9, Ágúst Orrason 6, Ragnar Örn Bragason 5, Dominique Elliott 3/5 fráköst.
Haukar: Kári Jónsson 27/5 fráköst/8 stoðsendingar, Paul Anthony Jones III 24/12 fráköst, Haukur Óskarsson 15, Finnur Atli Magnússon 8/6 fráköst/3 varin skot, Breki Gylfason 5/4 fráköst, Emil Barja 2/4 fráköst, Hjálmar Stefánsson 2, Kristján Leifur Sverrisson 2/4 fráköst.
Dómarar leiksins fengu að sjá sjónvarpsupptöku frá lokaskoti Kára og dæmdu það í lagi.
Guðmundur Jónsson var bestur í liði Keflvíkinga og kom þeim á bragðið með frábærum leik í upphafi leiks. Hann skoraði 23 stig.
Hörður átti góðan leik gegn Haukum.
Stuðningsmenn Keflvíkinga voru í stuði allan leikinn en áttu erfitt að trúa lokakaflanum.
Christian Dion Jones skorar.
Dupree sækir að körfu þeirra rauðklæddu.
Guðmundur Jónsson og Daði Lár á fleygiferð.