Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Karfan: Suðurnesjasigrar á línuna
Föstudagur 16. nóvember 2007 kl. 09:51

Karfan: Suðurnesjasigrar á línuna

Keflavík, Grindavík og Njarðvík unnu góða sigra í Iceland Expressdeild karla í körfuknattleik í gærkvöldi. Njarðvík batt þar með enda á þriggja leikja taphrinu, en Keflvíkingar eru sem fyrr í efsta sæti deildarinnar, hafa unnið alla sína sjö leiki. Grindvíkingar fylgja Keflvíkingum sem skugginn, hafa einungis tapað einum leik, einmitt gegn Keflavík.

Keflavík vann öruggan sigur á nýliðum Stjörnunnar, 80-101, í Garðabæ. Keflvíkingar byrjuðu af miklum krafti og héldu öruggu forskoti allan leikinn. Þeir Bobby Walker og Tommy Johnson fóru fyir liðinu í stigaskorun sem fyrr. Walker var með 28 stig og Johnson með 24.
Hjá Stjörnunni var Dimitar Kharadzovski með 20 stig.

Njarðvíkingar réttu úr kútnum eftir slakt gengi undanfarið og unnu Hamar í Hveragerði, 68-75, þar sem gamla brýnið Brenton Birmingham fór fyrir sínum mönnum sem fyrr. Hann gerði 19 stig og var stigahæstur, en Egill Jónasson kom honum næstur með 12 stig.
Hjá Hamri fór George Byrd mikinn og var með 18 stig og jafnmörg fráköst.

Grindvíkingar eru á góðri siglingu og unnu Fjölnismenn í Grafarvogi í gær, 84-90. heimamenn byrjuðu betur en Grindvíkingar unnu á jafnt og þétt og voru komnir með gott forskot fyrir lokaleikhlutann þar sem þeir gátu leyft sér að stíga af bensíngjöfinni.
Allir leikmenn Grindvíkur skiluðu sínu, en fyrirliðinn Páll Axel Vilbergsson var stigahæstur með 20 stig. Hjá Fjölni var Bandaríkjamaðurinn Karlton Mims stigahæstur með 21 stig, en 17 af þeim komu í 4. leikhluta, þegar leikurinn var allt að því búinn.

Tölfræði leikjanna

Staðan í deildinni

VF-mynd: Stefán Þór Borgþórsson – Bobby Walker að sækja að körfu Stjörnumanna

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024