Karfan: Njarðvík og Grindavík vinna leiki sína í karlaflokki, en Njarðvíkurstúlkur tapa illa
Njarðvík og Grindavík unnu bæði sannfærandi sigra í mikilvægum leikjum í Intersport-deildinni í kvöld, en Njarðvík tapaði illa gegn ÍS í 1. deild kvenna.
Intersport-deildin
ÍR-NJARÐVÍK 95-102
Njarðvíkingar náðu að hrista af sér slenið eftir tapið í bikarúrslitunum um síðustu helgi og unnu góðan útisigur á ÍR-ingum sem hafa verið á mikilli siglingu í síðustu leikjum.
Heimamenn höfðu forystu nær allan leikinn, en Njarðvíkingar náðu undirtökunum í síðasta leikhluta og héldu forystunni til leiksloka.
Friðrik Ragnarsson, þjálfari Njarðvíkinga var ánægður með tvö mikilvæg stig og vonaði að nú væri liðið komið upp úr öldudalnum sem það hefur verið í að undanförnu. „Þetta var ströggl en hafðist þó. Það var auðvitað mikið reiðarslag að tapa bikarleiknum og það er alltaf erfitt að rífa sig upp eftir svoleiðis, en við börðumst vel og uppskárum eftir því.“
Páll Kristinsson átti óhemju góðan leik þar sem hann skoraði 31 stig fyrir Njarðvík og nýtti skot sín með eindæmum vel. Brenton Birmingham skoraði 22 stig og Friðrik Stefánsson átti einnig stórfínan leik undir körfunni þar sem hann skoraði 19 stig. Brandon Woudstra skoraði 10 stig í leiknum, en hann á enn nokkuð í land með að ná sér af meiðslunum sem hann varð fyrir í deildarleiknum gegn Keflavík um daginn.
Maurice Ingram var stigahæstur ÍR-inga og skoraði 27 stig, en Eiríkur Önundarson gerði 20.
KR-GRINDAVÍK
Grindvíkingar hristu líka af sér slyðruorðið í kvöld þegar þeir lögðu KR á heimavelli þeirra síðarnefndu með sannfærandi hætti. Sigurinn var fullkomlega verðskuldaður þar sem Grindvíkingar leiddu nær allan leikinn og hleyptu heimamönnum aldrei inn í leikinn.
Friðrik Ingi Rúnarsson, þjálfari sigurliðsins, var í skýjunum að leik loknum og sagði í samtali við Víkurfréttir í leikslok að hans menn hefðu að öllum líkindum spilað sinn besta leik í vetur í kvöld. „Menn komu tilbúnir til leiks og voru einbeittir allan tímann. Allir hugsuðu um sitt hlutverk innan liðsins og strákarnir stóðu sig allir vel og það held ég að hafi verið lykillinn að þessum sigri“ Jackie Rogers, Bandaríkjamaðurinn sem er til reynslu hjá Grindvíkingum, kom lítillega við sögu í kvöld en náði lítið að beita sér sökum veikinda sem hann hefur átt við.
Darrel Lewis átti mjög góðan leik og skoraði 38 stig fyrir Grindavík og Páll Axel Vilbergsson gerði 29. Josh Murray skoraði 41 stig fyrir KR og Ingvaldur Magni Hafsteinsson 12.
1.deild kvenna
ÍS-NJARÐVÍK 60-39
Njarðvíkurstúlkur virðast ekki ætla að ná flugi í deildinni og leikurinn í kvöld var engin undantekning á því. Stúdínur skoruðu fyrstu 9 stigin í leiknum og náðu forystu sem Njarðvíkingar náðu aldrei að brúa. Þær náðu aldrei að saxa verulega á forskotið og áttu raunar afleitan leik hvernig sem á það er horft.
Jón Júlíus Árnason, þjálfari stúlknanna, skóf ekki utan af hlutunum og sagði að leikurinn hafi verið hörmung frá upphafi til enda. „Þetta var bara einn af þessum leikjum þar sem ekkert gekk upp, sama hvað við reyndum. Við virkuðum þungar og andlausar og vorum á hælunum allan leikinn, en við spilum ekki svona í tvo leiki í röð. Stelpurnar vita að þær stóðu sig ekki vel og koma eflaust dýrvitlausar til leiks gegn Grindavík á miðvikudaginn.“
Stigahæst Njarðvíkinga var Eva Stefánsdóttir sem skoraði 12 stig, en athygli vakti að Andrea Gaines skoraði einungis 3 stig í öllum leiknum og hefur sjálfsagt sjaldan eða aldrei leikið eins illa.