Karfan: Keflvíkingar komnir í 2-0 gegn Haukum!
Usher reið baggamuninn í frábærum endaspretti heimamanna
Keflavík lagði lið Hauka öðru sinni í einvígi liðanna í 8 liða úrslitum Domino´s deilar karla 84-82. Þar með er Keflavík í lykilstöðu í rimmunni og þurfa nú aðeins einn sigur til að tryggja sér sæti í undanúrslitum.
Leikurinn í kvöld einkenndist af mikilli baráttu tveggja jafnra liða.Keflvíkingar höfðu frumkvæðið í fyrri hálfleik allt þar til að Haukar settu upp skotsýningu undir lok 2. leikhluta sem gaf þeim 0-12 áhlaup.
Í þeim síðari tóku Haukar síðan alfarið við keflinu og virtist alltaf vera meiri ró yfir þeirra leik á meðan sóknarleikur Keflvíkinga var stirður og tilviljunarkenndur. Damon Johnson og Davon Usher héldu Keflvíkingum á floti og þá átti Davíð Páll Hermannsson flottar innkomur með nauðsynlega baráttu í teiginn. Keflvíkingar léku án Guðmundar Jónssonar sem að glímir við smávægileg meiðsli í baki. Heimamenn söknuðu hans í bakvarðasveitina beggja megin vallarins í kvöld.
Þegar um fjórar mínútur lifðu leiks var nákvæmlega ekkert í kortunum sem benti til þess að Keflvíkingar ættu eftir að gera alvöru atlögu að sigri. Þá steig Davon nokkur Usher fram fyrir alvöru og vann fyrir launum sínum og rúmlega það. Maðurinn setti Keflavíkurliðið bókstaflega á herðarnar og í sókn eftir sókn skoraði hann úr öllum mögulegum áttum og virtist engu máli skipta hver var settur honum til höfuðs. Liðsfélagar hans fylgdu með varnarmegin og hægt og rólega hertist á vörn heimamanna sem að sýndu mikla grimmd síðustu mínúturnar sem að slökkti ljóstýrur í augum gestanna og ,,mómentið" sveiflaðist til Keflvíkinga á þriggja mínútna kafla.
Haukar reyndu hvað þeir gátu að halda í en allt kom fyrir ekki og Keflvíkingar innbyrtu gríðarlega mikilvægan sigur sem að setur þá í dauðafæri við undanúrslitin. Það skal þó ekki vanmeta Haukaliðið sem er feykisterkt, vel skipulagt og með djúpa liðsheild en þeir gerðust þó sekir um að hafa sofnað of snemma á verðinum í kvöld. Heimamenn toppuðu aftur á móti á hárréttum tíma og notfærðu sér augnablikið til fullnustu.
Sem áður segir var Davon Usher stigahæstur heimamanna með 32 stig og 7 fráköst, Damon Johnson kom honum næstur með 17 stig og 8 fráköst og Þröstur Leó Jóhannsson skoraði 10 stig.
Liðin mætast næst á föstudagskvöldið í Schenker-höllinni að Ásvöllum í Hafnarfirði og má búast við rosalegum leik þar sem að Haukarnir berjast fyrir tilveru sinni í úrslitakeppninni.