Karfan: Keflavíkurstúlkur unnu Grindavík í spennandi leik
Keflavík vann sigur á Grindavík í leik liðanna í 1. deild kvenna í kvöld. Lokastaðan var 72-79 bikarmeisturunum í vil.
Grindvíkingar höfðu yfirhöndina lengst af og voru með 2ja stiga forskot í hálfleik og leiddu með 7 stigum fyrir síðasta leikhluta. Þá duttu Keflvíkingar loks í gang og Birna Valgarðsdóttir fór að hitta eins og hún væri ein inni á vellinum. Keflvíkingar skiptu einnig yfir í svæðisvörn sem stöðvaði sóknartilburði heimaliðsins og forskotið minnkaði jafnt og þétt og Keflvíkingar unnu seiglusigur.
Pétur Guðmundsson, þjálfari Grindavíkurstúlkna, var ekki með öllu ósáttur við tapið því hans leikmenn voru lengst af betri aðilinn á vellinum. „Þetta sýndi bara að við getum unnið þær og þessi leikur var hin besta skemmtun og ekkert til að hengja haus yfir.“
Anna María Sveinsdóttir, reyndasti leikmaður Keflvíkinga, sagði margt líkt með þessum leik og bilarleiknum um helgina þar sem þær spiluðu illa framan af, en náðu svo loks að komast aftur inn í leikinn og tryggja sér sigur. „Við erum auðvitað sáttar við að vinna. Vörnin small loksins í síðasta leikhluta og Birna fór að hitta eins og brjálæðingur, en Grindavík var að leika mjög vel og eru á góðri siglingu.“
Eftir leikinn hefur Keflavíkurliðið fest sig í sessi á toppi deildarinnar, en Grindvíkingar eiga varla möguleika á því að komast ofar en fjórða sætið þar sem þær munu eigast við Njarðvíkinga það sem eftir lifir deildarkeppninni.