Karfan í gær: Viðtöl eftir leikina
Keflvíkingar voru langt frá sínu besta þegar þeir lögðu Hamar/Selfoss að velli í Iceland Expressdeild karla í gær, 81-63.
Það er ekki ofsögum sagt að leikurinn hafi verið í daufara lagi, enda skoruðu liðin ekki eitt einasta stig fyrr en eftir 4 mínútna leik. Gestirnir voru frískari framan af og leiddu eftir fyrsta leikhluta, 10-16.
Eftir það náðu heimamenn stjórn á leiknum og voru yfir í hálfleik.
ÞEgar allt stefndi í að Keflvíkingar ætluðu að sigla framúr náðu Hamarsmenn góðum kafla og söxuðu á forskotið þar til Keflvíkingar hrukku loks aftur í gang og kláruðu leikinn.
Gunnar Einarsson, fyrirliði Keflavíkur, sagði þá hafa komist upp með að vera á hælunum. „Við spýttum bara í lófana undir lok leiksins, en fram að því vorum við niðri á þeirra stigi, sem við eigum aldrei að þurfa að gera.“
Hann sagði enga afsökun í því að þeir léku erfiðan Evrópuleik fyrir skemmstu, því þeir væru vanir svona álagi og þeir hafi fengið nógu góða hvíld.
KR sigrar í toppslag
Njarðvíkingar töpuðu gegn KR í Vestubænum í miklum spennuleik í gær. Lokatölur voru 75-69, en staðan var jöfn, 67-67 þegar stutt var eftir.
„Þeir gerðu bara færri mistök undir lokin,“ sagði Einar Árni Jóhannsson, þjálfari Njarðvíkur. „Svo setur Brynjar Björn tvær stórar 3ja stiga körfur undir lokin og á meðan vorum við ekki að finna nógu góð skot. Þannig má segja að þetta hafi verið blanda af heppni og skynsemi hjá KR sem tryggði þeim þennan sigur, en við spiluðum einfaldlega ekki nógu vel að þessu sinni.“
Einar Árni sagði að þeir væru þegar farnir að huga að næsta leik sem er Evrópuleikur gegn eistneska liðinu Turku á miðvikudag. Hann segir það lið ekki eins hávaxið og hin tvö og telur möguleikana góða á sigri. „Við munum leggja allt í sölurnar og mæta ferskir í þennan slag. Við stefnum grjótharðir á sigur og ef við spilum vel eigum við góða möguleika.“
Tap í Borgarnesi
Grindvíkingar sóttu sömuleiðis engin stig á útivöll í gær, en þeir töpuðu fyrir Skallagrími í Borgarnesi, 83-74.
Skallarnir hófu leikinn af krafti og náðu góðu forskoti strax í byrjun sem Grindvíkingar náðu ekki að brúa. Þeir komust þó ansi nálægt því í seinni hálfleik, en lærisveinar Vals Ingimundarsonar voru sterkari á lokasprettinum.
Friðrik Ragnarsson, þjálfari Grindavíkur, sagði alltagf erfitt að leika í „Fjósinu“eins og heimavöllur Skallagríms er jafnan kallaður.
„Þeir virðast alltaf hitta vel hér og voru með 13 þriggja stiga körfur í gær. Við vorum hins vegar ekki að spila eins vel og við getum. Við ætluðum okkur að taka þetta, en við verðum víst að bíða eftir öðru tækifæri til þess.“
VF-myndir/Þorgils