Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Fimmtudagur 4. mars 2004 kl. 20:55

Karfan: Grindavík og Njarðvík unnu, Keflavík tapar óvænt

Síðasta umferð Intersport-deildarinnar fór fram í kvöld og réðst þar endanlega hvaða lið munu mætast í 8-liða úrslitunum sem hefjast 11. mars.


TINDASTÓLL-NJARÐVÍK
Njarðvíkingar höfðu sigur, 99-96, gegn Tindastóli í rafmögnuðum, tvíframlengdum leik á Sauðárkróki. Heimamenn höfðu frumkvæðið framan af leiknum og leiddu naumlega eftir fyrsta leikhluta. Annar leikhluti var mjög kaflaskiptur þar sem Stólarnir áttu góðan kafla og náðu 13 stiga forskoti. Njarðvíkingar settu þá í fluggírinn og gerðu 20 stig á móti 2 stigum heimamanna og náðu frumkvæðinu í seinni hálfleik. Venjulegum leiktíma lauk með stöðunni 76-76 og var því gripið til framlengingar. Njarðvíkingar byrjuðu betur, en Tindastóll hélt í við þá og varð að framlengja að nýju eftir að staðan var 85-85 þegar lokaflautið gall. Njarðvíkingar voru í bílstjórasætinu á lokasprettinum og unnu að lokum góðan, verðskuldaðan sigur.

Friðrik Ragnarsson, þjálfari Njarðvíkinga, var ánægður með sigurinn, sem hann sagði mikilvægt veganesti fyrir úrslitin. „Við spiluðum ágætlega í kvöld og það var margt jákvætt í þessum leik. Við höfum nú unnið 2 góða sigra, stemmningin er góð í hópnum og virðumst vera að toppa á réttum tíma.“

Stigahæstir:
Tindastóll: Nick Boyd 27, Clifton Cook 24, David Sanders 20, Axel Kárason 16.
Njarðvík: Brandon Woudstra 31, Brenton Birmingham 28, Will Chavis 27.



GRINDAVÍK-BREIÐABLIK
Grindvíkingar unnu frekar fyrirhafnarlítinn sigur á Breiðabliki í leik sem skipti engu máli fyrir liðin þar sem Grindvíkingar voru öruggir í öðru sætinu og Blikarnir voru þegar fallnir. Leikurinn bar þess merki þar sem yfirbragðið var nokkuð létt og Grindvíkingar gátu leyft sér að gefa yngri leikmönnum tækifæri til að láta ljós sitt skína.
Fyrsti leikhluti var jafn, en Grindvíkingar voru komnir með afgerandi forskot fyrir hálfleik sem jókst smátt og smátt til loka.

Friðrik Ingi Rúnarsson var ánægður með leik sinna manna í kvöld þrátt fyrir að ekki hafi verið mikið til að keppa að. „Við reyndum að halda uppi tempóinu og ungu strákarnir stóðu sig mjög vel. Svo var nýi leikmaðurinn okkar líka góður.“

Stigahæstir:
Grindavík: Páll Axel Vilbergsson 25, Darrel Lewis 20, Anthony Jones 16, Jackie Rogers 14, Davíð Páll Hermannsson 10.
Breiðablik: Mirko Virijevic 32/12, Kyle Williams 18, Loftur Einarsson 13.



HAUKAR-KEFLAVÍK
Keflvíkingar köstuðu frá sér unnum leik gegn sterku Haukaliði á Ásvöllum þegar þeir töpuðu 90-88 í kvöld. Keflvíkingar, sem léku án Gunnars Einarssonar, misstu niður 15 stiga forskot tvívegis í leiknum og munu sennilega naga sig í handarbökin fyrir að hafa ekki verið búnir að klára leikinn löngu áður en Haukar komu til baka í síðasta leikhlutanum.
Svipaðir hlutir voru uppi á teningnum hjá Keflvíkingum í síðustu leikjum, en þeir héldu út í þau skipti. Því var ekki að skipta í kvöld þar sem Haukar náðu að jafna undir lokin og gestirnir misstu boltann strax í næstu sókn. Þá fékk Whitney Robinson boltann og kom Haukum yfir þegar 6 sekúndur voru eftir af leiknum. Keflvíkingar náðu ekki að svara fyrir sig og Haukasigur var staðreynd.

Falur Harðarson var allt annað en ánægður með leik sinna manna í kvöld og sagði að mikið lægi á að laga það sem aflaga hefur farið að undanförnu. „Við hentum þessu bara frá okkur! Menn voru bara hræddir, en við verðum bara að taka því sem við erum búnir að koma okkur í. Samt gæti verið gott að fá svo verðugt verkefni strax í fyrstu umferðinni til að koma okkur í gang.“

Stigahæstir:
Haukar:Mike Manciel 26/13, Sævar Haraldsson 14, Kristinn Jónasson 13, Whitney Robinson 13.
Keflavík: Allen 30, Bradford 30/10, Fannar Ólafsson 14.

Þannig er ljóst að leikirnir í fyrstu umferð úrslitakeppninnar verða sem hér segir:

Snæfell - Hamar
Grindavík - KR
Keflavík - Tindastóll
Njarðvík - Haukar

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024