Bragi Guðmundsson - Báruklöpp
Bragi Guðmundsson - Báruklöpp

Íþróttir

Karen hugsar jákvætt
Karen Guðnadóttir stóð sig vel í Vestmannaeyjum um síðustu helgi.
Föstudagur 14. júní 2013 kl. 10:07

Karen hugsar jákvætt

Um síðustu helgi lauk öðru mótinu á Eimskipsmótaröðinni í golfi en mótið fór fram í..

- Á jafnmikla möguleika og hinar

Um síðustu helgi lauk öðru mótinu á Eimskipsmótaröðinni í golfi en mótið fór fram í Vestmannaeyjum. Hin 21 árs Karen Guðnadóttir úr Golfklúbbi Suðurnesja endaði í 3. sæti á mótinu eftir mikla baráttu um efsta sætið lengi vel. „Spilamennskan hjá mér var ekki góð framan af sumri, en svo þegar ég var búin að koma mér í spilaform varð skorið aftur eðlilegt,“ segir Karen sem hefur verið dugleg að mæta á æfingar hjá þjálfara í vetur.

Áður en hún hélt í mótið í Eyjum undirbjó hún sig með sérstökum hugaræfingum og jákvæðum hugsunum. „Mér gekk frekar illa í mótinu á Akranesi á dögunum og ég ákvað að bæta mig og lækka mig í forgjöf. Mér gekk vel í æfingahringnum í Eyjum og var með mjög jákvætt hugarfar fyrir mótið. Mér tókst mjög vel í mótinu að halda mínu striki þótt inn á milli hafi komið upp klaufaleg mistök,“ sagði Karen í samtali við Víkurfréttir.

Þarf að öðlast meiri reynslu

„Þrátt fyrir að hafa verið í baráttunni tókst mér að hugsa lítið sem ekkert um það og þannig náði ég mest allan tímann að vera stöðug á lokahringnum. Ég gerði klaufaleg mistök á síðustu holunni því þá vantaði greinilega einhverja reynslu því ég var orðin of spennt fyrir því að sjá hvernig þetta myndi enda, í stað þess að halda áfram að hugsa bara um mitt og leyfa mótinu að klárast í rólegheitum.“

Hún segir að gaman hafi verið að spila í lokaholli á mótaröðinni en þetta er aðeins í annað skipti sem Karen kemst þangað. „Ég er með meiri reynslu núna og finn að ég á alveg jafn mikla möguleika í baráttunni og hinar,“ segir Karen en hún er spennt fyrir komandi golfsumri.

„Ég er spennt fyrir framhaldinu og þegar mér tekst að ná almennilegum tökum á hugarfarinu í spilamennskunni þá næ ég að spila á því skori ég sem vil ná. Ég held áfram að æfa mig að hugsa um núið í spilamennskunni. Það eru mörg smáatriði sem ég ætla að ná að púsla saman, spurningin er bara hversu langan tíma það tekur fyrir mig að ná því,“ sagði Karen að lokum. 

Dubliner
Dubliner