Kanaskipti hjá Keflvíkingum
Brown kveður toppliðið
Keflvíkingar hafa ákveðið að segja skilið við Earl Brown og semja þess í stað við Jerome Hill sem lék með Tindastól þar til í gær, Karfan.is greinir frá þessu. Earl Brown hefur verið stórtækur með Keflvíkingum í Domino's deildinni í vetur þar sem hann hefur skilað 25 stigum og 12 fráköstum í leik.
Hann hefur hins vegar verið gagnrýndur fyrir slakan varnarleik og mun það líklega vera ástæðan fyrir uppsögn hans. Jón Halldór Eðvaldsson formaður kkd. Keflavíkur lét hafa eftir sér í sjónvarpsþættinum Körfuboltakvöld að Brown væri of slakur varnarlega. Keflvíkingar hafa tapað tveimur leikjum að undanförnu þar sem Brown þótti ekki standa sig nægilega vel, fyrst gegn Njarðvíkingum og svo gegn Þór í bikarnum. Gegn Hetti í síðasta leik var hann svo með aðeins 14 stig og fjögur í framlag í leiknum sem vannst naumlega.