Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Kanalausir Njarðvíkingar töpuðu heima
Fimmtudagur 15. desember 2011 kl. 09:42

Kanalausir Njarðvíkingar töpuðu heima

Fjölnir fór með baráttusigur af hólmi gegn Njarðvík í gærkvöldi, 60-68. Brittney Jones var stigahæst Fjölniskvenna með 32 stig, 13 stolna og 4 stoðsendingar og spilaði frábærlega. Hjá Njarðvík var Petrúnella Skúladóttir með 21 stig og 12 fráköst og Salbjörg Sævarsdóttir var með 15 stig og 19 fráköst.

Mikill hraði og barátta einkenndi fyrsta leikhlutann og greinilegt að hvorugt liðið ætlaði að gefa eftir þau tvö stig sem í boð voru. Njarðvík var að spila box & 1 vörn og voru að vonast til að stöðva Jones hjá Fjölni. Framan af var vörnin að virka þó svo að Fjölnir leiddu með einu stigi eftir leikhlutann, 18-19. Birna Eiríksdóttir var komin með 8 stig og Jones með 7. Hjá Njarðvík var Petrúnella algjörlega að sjá um Njarðvík sóknarlega og var komin með 11 stig. Greinilegt að Njarðvík saknaði helstu sóknarmanna sinna, þeirra Hardy og Baker-Brice.

Snemma í öðrum leikhluta fær Katina Mandylaris sína þriðju villu og sest á tréverkið. En sú villa var nokkuð dýrkeypt þar sem allir sáu að Erla Sif hafi brotið á Salbjörgu þegar hún reyndi að slá boltann úr höndunum á Salbjörgu. Í fyrstu dæmdi Eggert villuna á Erlu en þegar Sverrir, þjálfari Njarðvíkur, fór að röfla yfir því að Mandylaris hafi brotið en ekki Erla breytti Eggert dómnum og gaf Mandylaris sína þriðju villu. Nokkuð ,,shakey move“ hjá Eggerti. Í stað þess að láta þetta brjóta sig niður, þá þjöppuðu þær sig saman og náðu góðri forystu inn í hálfleikinn, 24-38. Jones var algjörlega yfirburðar maður hjá Fjölni í leikhlutanum og var komin með 17 stig. Petrúnella var þá komin með 14 stig fyrir Njarðvík.

Sverrir Þór hefur sagt einhver vel valin orð við sínar stelpur í hálfleik því þær komu inni í þriðja leikhlutann eins og nýtt lið. Þvílík barátta var í liðinu og sást að þær ætluðu ekki að gefast upp eða leyfa Fjölni að taka stigin tvö án þess að þurfa að vinna fyrir þeim. Á fjögurra mínútna kafla þá var Njarðvík búið að skora 15 stig á móti 2 hjá Fjölni og staðan orðin 39-40. Eftir það var nokkuð jafnt á með liðunum og staðan eftir leikhlutann var 51-51 og allt stefndi í spennandi loka leikhluta. Hjá Njarðvík var Petrúnella komin með 18 stig og Salbjörg með 11. En hjá Fjölni var Jones komin með 26 stig.

Aftur var sama sagan með Mandylaris þar sem hún fékk sína fimmtu villu og var send á tréverkið enn á ný. Leikhlutinn var í járnum framan af en um miðjan leikhlutann í stöðunni 58-58 gerði Fjölnir fimm stig í röð og þær komnar með forystu, 58-63. En þessi fimm stig sáu til þess að Fjölnir fór með sigur í þessum leik.

Njarðvík á hrós skilið fyrir mikla baráttu í seinni hálfleik, en eins og áður sagði þá var Petrúnella Skúladóttir stigahæst með 21 stig og 12 fráköst, Salbjörg Sævarsdóttir átti fínan leik með 15 stig og 19 fráköst. Þá var Ólöf Helga Pálsdóttir með flotta baráttu og endaði með 7 stig, 10 fráköst og 5 stolna.

Hjá Fjölni var Britney Jones yfirburðar manneskja, sem og vallarins, og endaði með 32 stig, 13 stolna og stolna. Þá var Erla Sif Kristinsdóttir var með 12 stig og 6 fráköst, Bergdís Ragnarsdóttir með 7 stig og 11 fráköst og Eva María Emilsdóttir með 11 fráköst.

Karfan.is

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024